Ketó matarræðið virðist vera vinsælt í dag og hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum. Það hefur virkað vel fyrir suma en á sama tíma ekki hentað öðrum. En eitt af því sem að fólk er mikið að spá í er afleiðingar matarræðisins á kólesterólið okkar.
Kólesterólið skiptist í gott og slæmt og gegna þau ólíkum hlutverkum.
Slæma kólesterólið (LDL)
Þegar aukning verður á LDL-kólesteróli sest það innan á slagæðaveggina. Því hærra sem LDL-kólesterólgildið er, því meiri hætta er á hjartasjúkdómum. Með því að lækka LDL-kólesteról er oft hægt að fyrirbyggja kransæðastíflur og þar með koma í veg fyrir ótímabæran dauða.
Góða kólesterólið (HDL)
Helsta hlutverk HDL kólesteróls er að fjarlægja hluta slæma kólesterólsins úr blóðinu. Hátt gildi á HDL kólesteróli dregur úr hættu á kransæðastíflu. Lágt gildi á HDL eykur hins vegar hættuna.
Þríglýseríðar
Þríglýseríðar eru önnur tegund fitu í blóðinu. Ef gildi þeirra er of hátt má gera ráð fyrir að LDL sé líka of hátt og HDL of lágt. Þegar hátt gildi þríglyseríða kemur til viðbótar háu LDL eykst áhættan enn frekar.
Kólesteról í fæðu stafar aðallega af fitu í mat og telja því margir að það að borða fituríkari fæðu myndi leiða til aukins magns kólesteróls í blóði. Engu að síður hafa margar rannsóknir sýnt að lágkolvetnafæða, fituríkt matarræði getur í raun minnkað magn kólesteróls og þar af leiðandi dregið úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum.
Í matarræðinu er mikilvægt er að passa upp á að borða góðar fitur, prótein og grænmeti með hinum fituríku fæðunum og hafa rétt hlutföll þar á milli. Dæmi um góðar fitur eru til dæmis lax, ólífuolía, chia fræ, hnetur og Avocado. Ef rétt er farið að, minnka þríglýseríðar og þar af leiðandi slæma kólesterólið (LDL), en hinsvegar hækkar góða kólesterólið (HDL).
Að lokum hefur ketó mataræðið áhrif á þyngdartap og baráttuna við offitu, en einn helsti áhættuþátturinn fyrir hátt kólesteról er offita. Þess vegna gæti ketó matarræðið minnkað hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.
Að sjálfsögðu er einstaklingsbundið hvort að matarræðið henti hverjum og einum, og er því mælt með að ræða við fagaðila áður en byrjað er.
Höfundur greinar
Bylgja Dís Birkisdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar