Það er komið nýtt ár…..nú skulu allir í form!
Jól og áramót eru að baki, dagblöðin eru yfirfull af auglýsingum líkamsræktarstöðvanna. Þrýstingurinn er í hámarki, nú ætla „allir” að taka sig í gegn. Lærin, ístran og fleiri líkamspartar hafa stækkað óskemmtilega eftir letilíf jólafrísins, allar gómsætu máltíðirnar, heimagerða konfektið og smákökurnar.
En hvað er best að gera til að koma línunum í lag?
Það er gott að hafa nokkrar staðreyndir á hreinu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru engar æfingar til sem brenna fitu af ákveðnum stöðum á líkamanum. Læraæfingar hafa engin bein áhrif á fituna á lærunum og kviðæfingar hafa engin bein áhrif á fituna um þig miðja(n). Fitan, eins og blóðið, tilheyrir öllum líkamanum en ekki aðeins vöðvanum sem er næst henni. Það má líkja þessu við ísskápinn á heimilinu. Hann geymir matinn sem tilheyrir öllum á heimilinu en ekki bara þeim sem stendur næst honum. Það er því tilgangslaust að hamast við að gera æfingar fyrir ákveðið svæði líkamans ef markmiðið er að losna við fitu af því svæði. Eina leiðin til að losna við fituna, hvar sem hún er á líkamanum, er að brenna fleiri hitaeiningum en þú neytir. Besta aðferðin er að sameina hollt og fitulítið mataræði með reglulegri þjálfun. Styrktarþjálfun til að auka vöðvamassa líkamans og þannig auka grunnbrennslu líkamans og þolþjálfun sem er frábær fitubrennsluþjálfun.
Settu þér raunhæf markmið í ár!
Ert þú ein(n) af þeim mörgu sem hefja líkamsæfingar með þvílíku offorsi um hver áramót að þú getur þig varla hreyft í marga daga vegna eymsla í vöðvum og allar þínar minningar um líkamsþjálfun eru aðeins þjáningar og vanlíðan? Þá ert þú ugglaust nú þegar búin(n) að læra af reynslunni að sú er besta leiðin til að gefast fljótt upp. Nú skalt þú breyta munstrinu og fara rólega af stað. Veldu þér tegund þjálfunar sem þér líkar og byrjaðu hægt og byggðu upp þol og styrk smám saman. Þó að þig langi til að sjá árangur strax, skaltu hafa hugfast að mun meiri líkur eru á að þú haldir áfram í æfingunum ef þú byggir þig upp stig af stigi. Þá eru líka mun meiri líkur á að þú munir sjá verulegan árangur. Það er lítið varið í árangur sem þú missir svo niður strax aftur af þvi að þú gefst upp. Til að komast af stað gæti orðið einhverjum hvatning að hugsa um alla ávinninga þjálfunar: Bætt þol, meiri styrkur, betri svefn, forvarnir gegn hjartasjúkdómum, hraustlegra útlit, betri línur, og svona mætti áfram telja.
Það koma sífellt fram fleiri niðurstöður rannsókna sem sýna fram á að regluleg þjálfun bætir árum við líf þitt og bætir lífi við árin þín. Þú hefur ekki afsökun lengur. Byrjaðu að æfa strax í dag. Ef þú hefur ekki stundað þjálfun í langan tíma gæti verið einfaldast fyrir þig að fara út að ganga. Mundu bara að byrja ekki á öfugum enda, byrjaðu á byrjuninni.
Gangi þér vel og góða skemmtun
Greinin hefur verið uppfærð
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar