Lýkópen hollustuefni í tómötum

Haustliti í náttúrunni og fjölbreytta liti grænmetis og ávaxta má að verulegu leyti rekja til flokks efna sem nefnist karótínóíðar. Meira en sex hundruð slík efni eru þekkt í plöntum og má skipta þeim í tvo flokka, karótín og santófýll. Nokkur efnanna hafa A-vítamínvirkni í líkamanum og er beta-karótín þeirra þekktast. Flestir kannast við að gulrætur eru auðugar að beta-karótíni og notkun þess sem litarefnis í matvæli er algeng. Færri kannast við efnið lýkópen sem gefur tómötum rauða litinn. Þótt lýkópen tilheyri karótínum, eins og beta-karótín, hefur það enga A-vítamínvirkni. Samt hefur áhugi á lýkópeni vaxið mikið á síðustu árum og á Netinu kynna sumir það sem heilsugjafa á töfluformi.

Áhuga á karótínum má rekja til þess að faraldsfræðilegar rannsóknir hafa eindregið bent til þess að rífleg neysla á grænmeti og ávöxtum dragi úr líkum á því að fólk fái hjartasjúkdóma og krabbamein. Í grænmeti eru fjölmörg efni en athyglin hefur beinst að karótínum, enda eru þau virk andoxunarefni sem draga úr myndun sindurefna, en talið er að þau geti átt þátt í framgangi ýmissa sjúkdóma. Því hafa verið settar fram tilgátur um það að karótín, sérstaklega beta-karótín, geti veitt vörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameinum.

Ýmsar tilraunir styðja þessar tilgátur en á síðustu árum hafa þó verið gerðar stórar rannsóknir sem ekki renna stoðum undir verndandi áhrif beta-karótíns. Það er því rétt að fara varlega við að draga ályktanir og fleiri efni en beta-karótín geta skipt máli sem vörn gegn sjúkdómum. Lýkopen gæti verið þar á meðal.

Fullyrðingar um hollustu

Þegar upplýsingar um lýkópen eru skoðaðar kemur fljótlega í ljós að umfjöllum um efnið er tvenns konar, annars vegar varfærnar greinar vísindamanna þar sem minnt er á að margt hefur ekki enn verið rannsakað, hins vegar eru greinar um kosti efnisins þar sem hvatt er til notkunar þess í matvæli og sem fæðubótarefni.

Sú tilgáta hefur verið sett fram á síðustu árum að lýkópen veiti vörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameinum í blöðruhálskirtli og meltingarvegi en skoðanir varðandi þessa tilgátu hafa verið mjög skiptar. Nokkrar faraldsfræðilegar tilraunir styðja tilgátuna. Í tilraunum hefur komið í ljós að lýkópen er öflugt andoxunarefni. Sýnt hefur verið fram á að lýkópen hamlar vexti krabbameinsfruma við ræktun á rannsóknastofu. Í tilraunum á músum hefur lýkópen dregið úr hættu á krabbameini. Hins vegar hefur verið bent á það að margir þættir hafi ekki verið rannsakaðir ennþá. Mjög lítið er vitað um efnaskipti lýkópens í fólki. Þá er ekki langt síðan rannsóknir á andoxunareiginleikum lýkópens hófust.

Einkum í tómötum

Lýkópen finnst í tómötum og tómatvörum en í mun minna mæli í flestu öðru grænmeti og ávöxtum. Vatnsmelónur eru þó einnig ágæt uppspretta lýkópens. Lýkópen er meðal þeirra karótína sem eru í mestu magni í fæðu fólks enda eru tómatvörur notaðar í marga rétti. Oft greininst lýkópen í hæstum styrk þeirra karótína sem eru í blóði. Lýkópen er fremur stöðugt og eyðist því lítið við framleiðslu á ýmsum tómatvörum.

Styrkur lýkópens eykst þegar tómatar þroskast og gefur það þá aukinn rauðan lit. Styrkurinn getur líka verið breytilegur eftir tómatafbrigðum og fleiri þáttum. Því hefur verið haldið fram að lítið lýkópen sé í tómötum sem ræktaðir eru í gróðurhúsum á norðlægum slóðum þar sem sólarinnar nýtur minna við en í suðlægum löndum. Því er forvitnilegt að skoða lýkópen í íslenskum tómötum þar sem sólarljósið og rauði liturinn lætur stundum á sér standa.

Gerðar voru mælingar á lýkópeni og nokkrum öðrum karótínum í tómötum á markaði hérlendis í mars og apríl 1998. Mælingarnar voru gerðar í Hollandi og voru liður í verkefni um gæði grænmetis sem nokkrir aðilar standa að. Sýni voru tekin af íslenskum og innfluttum tómötum sem voru tilbúnir til neyslu og höfðu því tekið rauðan lit. Niðurstöðurnar sýna að í flestum tilfellum er meira af lýkópeni í íslenskum tómötum heldur en í þeim innfluttu. Athyglisvert er að íslensku tómatarnir voru ræktaðir við takmarkað sólarljós og þurfti að nota raflýsingu að hluta við ræktunina. Þau sýni sem mæld voru benda því til þess að íslenska framleiðaslan standi erlendri framleiðslu fyllilega jafnfætis.

Bætt í matvæli

Matvælafyrirtæki erlendis hafa unnið mikið þróunarstarf til að undirbúa framleiðslu á svonefndu markfæði (functional foods) með viðbættu lýkópeni. Nú þegar er hægt að kaupa blöndur með lýkópeni til íblöndunar í matvæli. Til framleiðslunnar eru notaðir eldrauðir tómatar en með ræktun hefur tekist að að fá fram afbrigði með mjög miklu lýkópeni. Framleiðendur telja hollustugildi lýkópens mjög mikið og halda fram að það verði algengt íblöndunarefni í matvæli á næstu öld.

Annar þáttur lýkópens gleymist stundum en hann er óumdeildur. Lýkópen er nefnilega fyrirtaks litarefni, það er náttúrlegt, stöðugt í matvælum og gefur sterkan rauðan lit. Þegar lýkópen er notað sem litarefni í matvælum er það auðkennt á umbúðum með númerinu E 160d.

Lýkópentöflur eru þegar komar á markað erlendis sem fæðubótarefni. Boðið er upp á töflur sem innihalda frá 5 og upp í 20 milligrömm af lýkópeni. Einn framleiðandi býður jafnvel upp á 200 milligramma töflur. Þegar litið er á magn lýkópens í tómötum kemur í ljós að ekki þarf nema einn eða tvo rauða tómata til að jafnast á við fimm milligramma töflu. Reyndar hafa tómatarnir ótal kosti fram yfir pillur: Trefjaefni, vítamín, steinefni, ýmsa karótenóíða – og svo náttúrulega bragðið.

Beint úr náttúrunni

Enn sem komið er skortir upplýsingar til að hægt sé að fullyrða afdráttarlaust um áhrif lýkópens á heilsu. Meðan svo er, er tæplega hægt að mæla með lýkópentöflum eða markfæði sem bætt er með lýkópeni. Aftur á móti er ljóst að lýkópen er heppilegt litarefni í matvæli.

Niðurstaðan er sú að neysla grænmetis og ávaxta skiptir máli fyrir heilsu en það er flókið að rekja áhrif einstakra efna, enda skipta þau þúsundum í þessum fæðutegundum. Tómatar eru besta uppspretta lýkópens fyrir þá sem vilja neyta þess og því ætti ekki að vera nein sérstök þörf fyrir lýkópentöflur. Íslenskir tómatar virðast fyllilega standa jafnfætis innfluttum tómötum sem lýkópengjafar. Innlenda tómatframleiðslan eru í sölu frá því í febrúar og fram á haust. Í svartasta skammdeginu er bilið brúað með innflutningi.

Heimildir:

Benda má á tvær nýlegar greinar sem gefa yfirlit um lýkópen á ólíkan hátt.
S. K. Clinton, 1998. Lycopene: Chemistry, biology, and implications for human health and disease. Nutrition Reviews 56 (2): 35-51.
Z. Nir & D. Hartal, 1996. Lycopene in functional foods. A new commercial natuaral carotenoid from tomatoes. Food Tech. Europe. Des. 1995/Jan. 1996.

Grein úr tímaritinu Heilbrigðismál, 3. tbl. 1998.

Höfundur greinar