Streita og meðferð

Öll upplifum við af og til streitu, við álag, mótlæti og áföll. Margs konar flókin starfsemi í tauga- og hormónakerfi okkar gerir okkur kleift að takast á við álag og sálrænar varnir verja andlega heilsu.

Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir hvernig við getum best eflt mótstöðuafl okkar og varnir. Margar rannsóknir hafa sýnt fram mikilvægi hvíldar og hreyfingar. Það er ekki nægilegt að hvílast um helgar eða á kvöldin, það er einnig mikilvægt að róa hugann og hvíla líkamann á milli verka yfir daginn.

Sjúkleg streita

Sjúkleg streita er sjúkdómsgreining þar sem hefur myndast sjúklegt ástand með miklu orkuleysi, spenntum huga, einbeitingarskorti, gleymsku og oft kvíða eða depurð

Svefntruflanir koma oft fram og þá myndast vítahringur með skorti á hvíld og getur þetta leitt til andlegrar og líkamlegrar örmögnunar.

Kvíði og þunglyndi eru algengir fylgifiskar streitu. Líkamleg sjúkdómseinkenni sem talin eru streitutengd eru fjölmörg. Þau algengustu eru til dæmis bakflæði, kyngingarörðuleikar, þyngsl fyrir brjósti og hjartsláttaróregla. Kviðverkir eru líka algengir, meltingartruflanir og breytingar á hægðum. Önnur almenn einkenni eru svimi, sjóntruflanir og viðkvæmni fyrir hljóðum og áreiti.

Þunglyndi

Ef þunglyndi er til staðar dag hvern og stendur lengur en tvær vikur með truflandi einkennum eins og einbeitingartruflun, sterkum kvíða eða miklu vonleysi þá getur verið um að ræða sjúklegt þunglyndi. Því geta fylgt líkamleg einkenni og alvarleg svefntruflun. Við slíku þunglyndi er nauðsynlegt að leita sér meðferðar hjá lækni eða sálfræðingi því árangursrík meðferðarúrræði eru til.

Meðferð streitu

Ef kulnun er komin á alvarlegt stig eða sjúkleg streita hefur verið greind er mikilvægt að leita sér ráðgjafar og lækninga.

Læknar, sálfræðingar og margar aðrar heilbrigðisstéttir veita ráðgjöf og meðferð og geðlæknar og margir sálfræðingar hafa sérþekkingu á greiningu og meðferð sjúklegrar streitu og annarra streitutengdra sjúkdóma.

Höfundur greinar