Sykurskert fæði

Sykursýki tegund 2 greinist oftast eftir miðjan aldur. Meðferðin felst í breyttum lífstíl, hollu mataræði og hreyfingu. Margir þurfa einnig á lyfjum að halda.

Fæði fyrir sykursjúka

Fæði sem hentar sykursjúkum hentar öllum. Sykursýkisfæði er venjulegt fjölbreytt fæði þar sem lögð er áhersla á hollt og skynsamlegt fæðuval. Rétt fæðuval á sinn þátt í heilbrigði okkar og vellíðan. Það er því mikilvægt að vanda val þeirrar fæðu sem við leggjum okkur til munns. Leitaðu ráða hjá næringarráðgjafa um rétt fæðuval og hollar matarvenjur.

Almennar ráðleggingar

Borðaðu sterkju- og trefjaríkan mat. Sterkjurík kolvetni eru t.d. brauð, kartöflur hrísgrjón, pasta og gróf morgunverðarkorn. Sterkju- og trefjarík kolvetni berast hægar út í blóðið. Skipuleggðu máltíðir dagsins þannig að þú borðir alltaf sterkju- og trefjarík kolvetni með máltíðum. Þá gengur þér betur að hafa stjórn á blóðsykrinum.

Þú eykur trefjaneyslu með því að:

  • Borða brauð og ósætt kex sem bakað er úr grófu mjöli s.s. heilhveiti, rúgmjöli, haframjöli og hveitiklíð.
  • Byrja daginn með hafragraut eða grófu morgunverðarkorni eða grófu brauði.
  • Borða grænmeti og ávexti daglega.
  • Borða baunarétti og salöt ýmisskonar.
  • Minnkaðu sykurneysluna.

Fínunnin kolvetni berast hratt út í blóðið. Það orsakar háan blóðsykur og stjórnun sykursýkinnar verður erfiðari.

Í stað sykurs má nota Canderel, Sweet´N Low og Hermesetas. Ef þessir sætugjafar eru notaðir í mat er nauðsynlegt að setja þá í eftir suðu, því annars er hætta á að rammt eða beiskt bragð verði af matnum.
Notaðu alla sætugjafa í hófi.

 

Vörur fyrir sykursjúka.

Víða er framleitt sælgæti sem ætlað er sykursjúkum t.d. ýmsar tegundir af súkkulaði. Ekki er mælt með neyslu á þessum vörum, þær innihalda oft álíka mikið magn af sykri, fitu og orku og aðrar vörur sem framleiddar eru fyrir almennan markað.

Vertu sem næst kjörþyngd.

Það auðveldar meðferð sykursýkinnar, stuðlar að betri líðan og lyfin virka betur. Ekki sleppa úr máltíðum.

Reglulegir matmálstímar stuðla að minni sveiflum á blóðsykri og betri sykursýkisstjórnun.

Takmarkaðu neyslu á fitu.

Mikil fituneysla, sérstaklega á harðri fitu, eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Þú minnkar fituneysluna með því að:

  • nota minni fitu við matreiðsluna
  • velja undanrennu,fjörmjólk eða léttmjólk
  • nota fituminna viðbit s.s Klípu, Léttu, Létt og laggott, Sólblóma og Plús3
  • velja frekar magra osta heldur en feita.

Takmarkaðu saltneysluna.

Mikil neysla á söltum og reyktum mat er ekki æskileg. Of mikil saltneysla getur stuðlað að háþrýstingi. Notaðu önnur krydd t.d. sítrónusafa, lauk og ýmis jurtakrydd.

Gættu hófs í neyslu áfengra drykkja.

Ekki er ráðlagt að drekka áfengi á fastandi maga, það getur orsakað blóðsykursfall. Sum sykursýkislyf og áfengi fara ekki saman. Fáðu upplýsingar um það hjá lækni eða lyfjafræðingi.
Áfengi er einnig orkuríkt.

Drykkir.

Vatn er besti drykkurinn. Aðrir drykkir við hæfi eru sykurlausir gosdrykkir og sykurlaus djús, kaffi og te. Ráðlegt er að drekka ekki meira en 2 glös af mjólk daglega.

Fæðuhringnum er skipt í sex fæðuflokka

Kjöt, fiskur og egg
Gefa prótein, járn og steinefni. Veljið magurt kjöt. Borðið fisk tvisvar til fjórum sinnum í viku.

Mjólk og mjólkurvörur
Gefa prótein og steinefni. Veljið til neyslu fituminni mjólk s.s. léttmjólk, undanrennu, fjörmjólk og magrar mjólkurafurðir s.s. skyr, magra osta, kotasælu og létt sykurskert jógúrt.

Feitmeti
Gefur A-, D- og E-vítamín. Úr 1 tsk. (5 ml) af þorskalýsi færðu dagsþörf þína af A- og D-vítamíni.
Fita er mjög orkurík, því er ráðlagt að takmarka neyslu á fitu.

Brauð og aðrar kornvörur
Gefa sterkjurík kolvetni, trefjar, járn og B-vítamín. Veljið til neyslu brauð og kornmat sem búinn er til úr grófu mjöli.

Grænmeti, kartöflur og baunir
Gefa sterkjurík kolvetni, vítamín, steinefni og trefjar. Æskilegt er að borða grænmeti daglega.

Ávextir og ber
Gefa kolvetni, trefjar og nauðsynleg vítamín s.s. C-vítamín. Æskilegt er að borða ferska ávexti daglega. Munið að fjölbreytt fæði er lykillinn að hollu mataræði og hreyfing er öllum nauðsynleg.

Tillaga að matseðli

Mikilvægt er að hafa reglu á matmálstímum. Sleppið ekki úr máltíðum. Nartið ekki milli mála.

Morgunverður: 
Hafragrautur eða sýrð léttmjólk með grófu korni.
Gróft brauð. Fituminna viðbit. 17% ostur.
½ ferskur ávöxtur eða 3 sveskjur.
½ glas undanrenna, fjörmjólk eða léttmjólk.
1 tsk. þorskalýsi.
Kaffi eða te.

Hádegisverður/kvöldverður: 
Spónamatur t.d. grænmetissúpa eða skyr.
Gróft brauð. Fituminna viðbit.
Magurt álegg. Grænmeti.
1 glas undanrenna, fjörmjólk eða léttmjólk.
Ferskan ávöxt.

Síðdegishressing/kvöldhressing: 
Gróft brauð, hrökkbrauð eða bruður.
Fituminna viðbit eða smurostur.
Kaffi eða te.

Kvöldverður/hádegisverður: 
Heitur matur, fiskur eða magurt kjöt.
Kartöflur/hrísgrjón eða pasta.
Grænmeti.
Spónamatur eða ferskur ávöxtur.

 

Höfundar greinar