Nýlega tók gildi reglugerð varðandi takmarkanir á sölu á vörum sem í er nikkel svo sem úr, skartgripir og fleiri vörur sem geta komist í beina snertingu við hörund fólks. Þetta er gert vegna ofnæmistilfella sem upp hafa komið og rekja má til notkunar á ýmsum vörum sem innihalda nikkel.
Tíðni sjúkdóma og óþæginda af völdum ofnæmis fer sífellt vaxandi, sérstaklega hjá börnum. Mikið af vörum hafa verið markaðssett á undanförnum árum sem innihalda efni sem talin hafa verið hættulaus en síðar hafi svo komið í ljós að þau gátu valdið ýmis konar óþægindum. Fjöldi þeirra efna sem talin eru ofnæmisvaldar fer stöðugt vaxandi. Nikkel er eitt þeirra efna sem getur valdið ofnæmi og hefur það verið vitað undanfarna áratugi. Nikkel er helsti ofnæmisvaldurinn í mörgum Evrópulöndum en málmurinn getur valdið næmi sem varir ævilangt. Einstaklingar sem eru viðkvæmir af þessum sökum geta fundið til verulegra óþæginda við notkun á beltissylgjum, úrum og skartgripum sem innihalda nikkel. Af þessum sökum hefur notkun nikkels verið bönnuð í vissum vörum sem líklegt er að komist í langvarandi snertingu við hörund nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um hlutfall nikkels í málmblöndu og hve auðveldlega nikkel losnar úr málminum. Þetta á jafnt við um hreinan málm, málmblöndu og húðaðan málm. Bann þetta gildir nú á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
Nikkel er algengur málmur í iðnaði og hefur notkun þess aukist stöðugt síðan á 5. áratug síðustu aldar. Um það bil 50% af nikkeli úr málmvinnslu er notað í ryðfrítt stál. Önnur not eru í ýmsar vörur úr málmi, til málmhúðunar, í rafhlöður, hvata og efnavörur. Ofnæmisáhrifin eru ekki aðeins bundin við nikkel í málmi og hefur komið í ljós að uppleyst nikkel og nikkelsölt eru jafnvel enn áhrifameiri ofnæmisvaldar. Vegna þessa á fólk í þeim atvinnugreinum þar sem unnið er með nikkelmálm og nikkelsölt frekar á hættu að fá ofnæmi en aðrir. Efnasambönd nikkels á borð við nikkeloxíð og nikkelsúlfíð eru krabbameinsvaldandi og þeir sem vinna með slík efni eiga það á hættu að fá húðkrabbamein. Það sama gildir um nikkelmálmryk. Ekkert bendir hins vegar til að önnur efnasambönd nikkels séu krabbameinsvaldandi.
Aukin tíðni ofnæmis.
Fyrstu tilfelli nikkelofnæmis voru greind hjá mönnum sem unnu við nikkelhúðun en síðan hafa tilfellin aukist í hlutfalli við aukna notkun á málminum. Talið er að allt að 10% evrópskra kvenna hafi ofnæmi fyrir nikkel sem er sennilega vegna skartgripanotkunar og 1% karla. Rannsóknir hafa sýnt að þetta hlutfall fari hækkandi. Í sumum löndum er þetta hlutfall enn hærra og er hlutfallið hærra meðal þeirra einstaklinga sem bera skartgripi sem festir eru í gegnum göt í eyru eða aðra líkamsparta.
Fleiri ofnæmistilfelli eru skráð af völdum nikkelsúlfats en nokkru öðru efni í sænsku atvinnulífi. Slík efni valda bæði ofnæmi í húð og í öndunarfærum eftir því hvort um hefur verið að ræða snertingu eða innöndun. Hætta er á að fólk fái astma við mikla innöndun.
Mjög algengt er að einstaklingar með nikkelofnæmi þjáist af exemi á höndum sem í mörgum tilfellum er erfitt að lækna og geta sum tilfelli verið það slæm að um örorku er að ræða. Í Danmörku eru greiðslur örorkubóta vegna húðsjúkdóma af völdum nikkelofnæmis algengari en vegna nokkurra annara húðsjúkdóma. Aukning ofnæmistilfella er greinilegust í yngri aldurshópum. Hafi maður ofnæmi fyrir málminum geta ýmsir málmhlutir valdið exemi þótt snertingin vari aðeins í stuttan tíma (mynt, lyklar, hurðarhúnar og ýmis verkfæri og áhöld). Mesta hættan stafar af götum í eyru og öðrum líkamshlutum sem í er stungið pinnum og hringjum sem innihalda nikkel. Í mörgum tilfellum eru þessir hlutir kallaðir öðrum nöfnum en nikkel, t.d. gull eða stál en innihalda engu að síður nógu mikið af nikkeli til að valda ofnæmi.
Nikkel úr fæðu veldur ekki ofnæmi.
Nikkel er að finna í mörgum matvælum en yfirleitt í það litlu magni að það veldur ekki óþægindum fyrir hinn almenna neytanda en hjá þeim sem þjást af nikkelofnæmi getur ofnæmið versnað. Upptaka nikkels í meltingarvegi er hæg en er nokkru meiri úr vatni en úr mat. Nikkel úr fæðu veldur ekki ofnæmi en getur kallað fram ofnæmisviðbrögð og getur matarkúr sem samanstendur af mat með lítið nikkelinnihald minnkað ofnæmisáhrifin.
Það hefur reynst vandkvæðum bundið að finna prófunaraðferðir til að meta nikkelinnihald vöru og hraða losunar nikkels úr vörum og var sú aðferð sem mest var notuð ekki talin gefa áreiðanlegar niðurstöður. Evrópska staðlaráðið hefur nú samþykkt þrjár mælingaaðferðir og eru niðurstöður þeirra viðurkenndar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Framleiðendum og innflytjendum verður hér eftir óheimilt að markaðssetja vörur úr málmi sem innihalda nikkel ef hætta er á að nikkel losni úr málminum og geti þannig valdið ofnæmi. Hollustuvernd ríkisins beinir þeim tilmælum til framleiðenda, innflytjenda og söluaðila að þeir fjarlægi slíkar vörur úr verslunum sem fyrst.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14.8. 2001
Höfundur greinar
Haukur Rúnar Magnússon, Hollustuvernd Ríkisins
Allar færslur höfundar