Eyrnabólga í ytra eyra

Eyrnabólga í ytra eyra er stundum kölluð „sund eyra“  eða swimmers ear á ensku. Um er að ræða sýkingu í eyrnagöngum fyrir framan hljóðhimnu, andstætt við eyrnabólgu í miðeyra sem er sýking innan við hljóðhimnu. Örsökin er gjarnan rakin til þess að vatn sitji í eyrnagöngum eftir sund eða bað og skapar þannig kjöraðstæður fyrir bakteríuvöxt.

Sýking getur líka orsakast af ofnotkun á bómullarpinnum, heyrnatólum sem sett eru inn í hlustina eða eyrnatöppum sem geta skaðað þunna húðina sem þekur hlustina.

Einkennin eru venjulega væg til þess að byrja með en ef sýkingin er ekki meðhöndluð getur ástandið versnað. Helstu einkenni eru í upphafi:

  •        Kláði í hlust
  •        Vægur roði
  •         Mild óþægindi sem framkallast ef togað er í eyrað eða ýtt á litla sepann sem liggur utan við hlustina.
  •         Lyktarlaus vessi sem lekur úr eyranu.

Ef sýkingin versnar má búast við að áðurtöld einkenni versni auk þess að viðkomandi geti fundið fyrir lakari heyrn og/eða tilfinningu um að eyrun séu stífluð.

Í alvarlegum tilfellum geta verkir frá eyranu leitt niður hálsinn eða fram í andlit, eyrnagöngin stíflast og eyrað verður rautt og bólgið. Eins má búast við því að eitlar í hálsi bólgni og að hiti fylgi sýkingunni.

Meferð og úrræði

Hefðbundin meðferð eru eyrnadropar sem innihalda stera og sýkladrepandi efni. Með því að hefja meðferð tímanlega má koma í veg fyrir að sýkingin verði alvarleg með tilheyrandi hættu á aukaverkunum.

Til þess að koma í veg fyrir að fá sundeyra er mikilvægt að þurrka eyrun vel eftir sund eða bað og reyna að ná öllum vökva út úr göngunum.  Þá getur hárþurrkan mögulega komið að góðu gagni en þá þarf að gæta þess að blása ekki af fullum krafti inn í hlustina og að hafa lágan hita á blæstrinum. Ekki er ráðlagt að setja eyrnapinna inn í hlustina í þessum tilgangi, það getur jafnvel gert illt verra.

Á meðan verið er að meðhöndla sýkingu í ytra eyra er mælt með því að forðast sund og köfun. Ekki er gott að fljúga ef sýkingin er mikil og best er að forðast að nota heyrnartæki og heyrnartól sem sett eru inn í eyrað ef viðkomandi er með verki eða það vessar úr eyranu. Eyrnatappar í sundi gætu hentað þeim sem lenda ítrekað í því að fá ítrekuð einkenni og stunda sund reglulega.

Höfundur greinar