Húðkrabbamein og fæðingarblettir

Efnisyfirlit

Orsakir

Þekktasta orsök húðkrabbameina er útfjólublá geislun. Mikil útfjólublá geislun í skamman tíma í einu sem orsakar bruna eykur hættu á sortuæxli og líklega á grunnfrumukrabbameini. Jöfn og stöðug geislun yfir langan tíma orsakar flöguþekjukrabbamein. Grunnfrumu- og flöguþekjukrabbamein eru algengust hjá fólki með ljósa húð, sem brennur auðveldlega, á svæðum sem sólin skín helst á, eins og á höfði, handarbökum og framhandleggjum. Geislaskemmdirnar safnast saman yfir æviskeið hvers og eins, allt frá barnsaldri, en geislaskemmdir sem verða hjá börnum og unglingum eiga mikinn þátt í myndun sortuæxla. Fæðingarblettir sem eru óreglulegir eiga einnig þátt í myndun sortuæxla og því þarf fólk sem er með óreglulega fæðingarbletti að fylgjast vel með sínum blettum. Eins ganga sortuæxli stundum í erfðir og til eru fjölskyldur með aukna tíðni þeirra.

Forvörn

Forvörnin felst aðallega í að minnka geislunaráhrif sólar og útfjólublárra geislagjafa eins og ljósabekkja. Í sólskini er þetta gert með því að nota sólvörn sem er að minnsta kosti nr. 15 með UVB og UVA vörn, nota hatt eða skyggni og bol. Einnig skal forðast að vera lengi í sól um miðjan daginn, sérstaklega milli kl. 11 og 14. Munið að verja börnin, því slæmur sólbruni barna og unglinga veldur því að þau eru í aukinni hættu fyrir myndun sortuæxla seinna meir. Góð vörn gegn sortuæxli er að skoða alla bletti á líkama sínum reglulega og athuga hvort um er að ræða einkenni sem nefnd eru í kaflanum um sortuæxli. Ef slíkra breytinga verður vart er rétt að leita til læknis sem fyrst svo að meðferð geti hafist ef um húðkrabbamein er að ræða.

Áhættuhópar

Húðkrabbamein eru algengari í fólki sem er ljóst á hörund og er með blá, grá eða græn augu, vegna þess að það er síður varið frá náttúrunnar hendi gegn skaðlegum áhrifum útfjólublárrar geislunar. Einstaklingum sem hafa sólbrunnið illa undir 20 ára aldri er frekar hætt við að fá sortuæxli síðar á ævinni. Þeir sem hafa óreglulega fæðingarbletti, sérstaklega ef sortuæxli eru í ættinni, fá fremur sortuæxli en aðrir. Óvíst er hve mikil áhættuaukning er á sortuæxli hjá fólki með óreglulega fæðingarbletti ef sortuæxli eru ekki ættgeng í fjölskyldu þeirra. Þeir sem hafa fengið eitt sortuæxli eiga frekar á hættu að fá annað. Það er því mikilvægt að þetta fólk sé skoðað reglulega m.t.t. breytinga á blettum.

Tíðni

Húðkrabbamein eru algengust krabbameina en jafnframt hvað læknanlegust, ef þau greinast snemma. Árið 1998 greindust 148 grunnfrumukrabbamein, 38 sortuæxli og 29 flöguþekjukrabbamein á Íslandi, samtals 215 tilfelli.

Greining

Greining á húðkrabbameinum og óreglulegum fæðingarblettum byggist á læknisskoðun, sem er staðfest með sýnatöku og vefjarannsókn. Þess vegna er mikilvægt að fara til læknis ef fram koma breytingar á húð eins og blettir sem stækka, sem eru mjög dökkir, óreglulega litir, eða breyta um lit og sár sem ekki gróa. Eftir greiningu eru fleiri blettir fjarlægðir, ef grunur leikur á að um húðkrabbamein sé að ræða.

Meðferð

Ef vefjarannsókn leiðir í ljós að um húðkrabbamein er að ræða eru nokkrar leiðir til að eyða því og fer eftir atvikum hvaða aðferð er beitt. Oftast er þó notuð skurðaðgerð. Þó að óreglulegir fæðingarblettir séu líklegri en venjulegir til að breytast í sortuæxli er það ekki algengt. Það er því ekki þörf á að fjarlægja alla óreglulega fæðingarbletti, einungis þá sem líkjast sortuæxlum.

Horfur

Sem betur fer eru húðkrabbamein auðsjáanleg (sbr. myndir). Lækningatíðni grunnfrumukrabbameina og flöguþekjukrabbameina er um 95% þegar rétt er að farið og þau greinast snemma. Ef sortuæxli er fjarlægt þegar það er á byrjunarstigi, og það hefur einungis vaxið grunnt niður í húðina, eru horfurnar svipaðar. Hins vegar ef það er ekki fjarlægt snemma og nær að vaxa dýpra í húðina eða jafnvel niður í fitu þá er mun meiri hætta á að það dreifi sér í önnur líffæri og valdi dauða.

Þrjár megingerðir húðkrabbameina

Grunnfrumukrabbamein er algengasta húðkrabbameinið í hvítu fólki. Fólk með þessa tegund húðkrabba er oftast ljóst á hörund, ljóshært eða rauðhært með blá, grá eða græn augu. Grunnfrumukrabbamein birtist oftast sem upphleyptur húðlitaður eða rauðleitur blettur á höfði eða hálsi, en stundum kemur það fram á búk og þá yfirleitt sem flatur, rauður blettur. Það getur tekið grunnfrumukrabbamein marga mánuði eða ár að verða einn sentímetri í þvermál. Ef æxlinu er leyft að vaxa blæðir oft úr því og hrúðrar á víxl. Þó að æxlið dreifi sér yfirleitt ekki til annarra staða í líkamanum (myndi ekki meinvörp) getur það vaxið djúpt í gegn um húðina t.d. inn í bein.

Sortuæxli er hættulegast allra húðkrabbameina. Sé það fjarlægt snemma, þegar það hefur aðeins vaxið grunnt í húðina, er það þó oftast læknanlegt. Sortuæxli er dökkt að lit enda á það uppruna sinn í frumum húðarinnar sem framleiða litkornin. Sortuæxlin eru oft mislit, ljósbrún eða dekkri, jafnvel svört og geta myndast á eðlilegri húð eða slímhúð, eða í eða við fæðingarblett. Æxli þessi hafa ríka tilhneigingu til að dreifa sér til ýmissa líffæra, sem gerir það að verkum að mun erfiðara verður að lækna krabbameinið ef það greinist seint. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast með fæðingarblettum og breytingum sem á þeim verða.

Flöguþekjukrabbamein kemur yfirleitt fram sem upphleypt svæði eða rauður hreistraður blettur, en oft greinist það ekki fyrr en það hefur myndað sár. Flöguþekjukrabbamein myndast oftast á andliti, &t horn;.m.t. vörum, í munni, en einnig á utanverðum eyrum, handarbökum og framhandleggjum. Þetta krabbamein getur orðið að stórum hrauk og það getur dreift sér um líkamann, þó að það sé sjaldgæft.

Sortuæxli eru ósamhverf, þ.e. annar helmingurinn er ekki spegilmynd hins.

Jaðrar sortuæxla eru skörðóttir og oft ógreinilegir. Sortuæxli eru oft mislit. Liturinn er breytilegur frá ljósbrúnu í dökkbrúnt eða svart og stundum má sjá rauð, hvít og svört svæði. Stundum eru þau þó jafnlit og mjög dökk.

Þvermál flestra sortuæxla er stærra en 5 mm (u.þ.b. stærð á blýantsstrokleðri) þegar þau eru greind. Önnur sjaldgæfari einkenni sortuæxla eru breytingar á yfirborði þeirra, t.d. með upphleyptu svæði eða sári, dreifingu litar í húðinni umhverfis æxlin eða óeðlileg tilfinning í þeim.

Fæðingarblettir

Fæðingarblettir eru ljós- eða dökkbrúnir blettir á húð, sem eru samsettir úr svokölluðum nevusfrumum og litfrumum. Sortuæxli er litfrumukrabbamein, en litfrumur gefa húðinni lit eftir sólargeislun. Mikilvægt er að gera greinarmun á venjulegum og óreglulegum fæðingarblettum. Óreglulegir fæðingarblettir virðast frekar breytast og mynda sortuæxli en venjulegir fæðingarblettir. Hormónaáhrif geta valdið breytingum á fæðingarblettum t.d. meðan á meðgöngu stendur og er þá rétt að láta skoða þá bletti. Meiri hætta er á sortuæxlum í meðfæddum fæðingarblettum og rétt að leita læknis strax ef breytingar verða á þeim.

Venjulegir fæðingarblettir

Litur: Ljós- eða dökkbrúnir, jafnlitir. Allir blettir á sömu manneskju líkjast hver öðrum.
Yfirborð:
Flatt og jafnt þegar bletturinn myndast fyrst, en hann getur orðið upphækkaður eða myndað jafna bólu með aldrinum.

Lögun: Kringlóttir eða ávalir og skarpt afmarkaðir frá húðinni í kring.

Stærð: Yfirleitt smærri en 5 mm (stærð á strokleðri á blýanti).

Fjöldi: Fullorðið fólk hefur að meðaltali 10-40 fæðingarbletti dreifða um líkamann.

Staðsetning: Venjulega fyrir ofan mitti þar sem sólskin nær til. Hársvörður, brjóst og þjóhnappar eru yfirleitt fæðingarblettalaus svæði.

Óreglulegir fæðingarblettir

Litur: Blanda af ljósbrúnu, dökku og e.t.v. rauð/bleiku í hverjum bletti. Blettirnir eru oft ólíkir hver öðrum.
Yfirborð:
Getur ýmist verið jafnt, aðeins hreistrað eða hrjúft, óreglulegt og örðótt.Lögun: Óreglulegar og óljósar brúnir, þ.e. blandast stundum inn í húðina umhverfis.

Stærð: Oft stærri en 5 mm og stundum stærri en 10 mm.

Fjöldi: Sumir eru með 10-40, hins vegar eru aðrir með yfir 100 bletti.

Staðsetning: Geta verið hvar sem er á líkamanum en algengast er að þeir séu staðsettir á bakinu. Stundum eru þeir fyrir neðan mitti, í hársverði, á brjóstum og á þjóhnöppum.

Mánaðarleg sjálfsskoðun

Til sjálfsskoðunar þarf langan veggspegil og handspegil í vel lýstu herbergi.

1. Skoðið húðina framan og aftan á líkamanum og síðan til hliðanna með handleggina upprétta. Beygið síðan olnbogana og skoðið framhandleggi innanverða, upphandleggi og lófa.

2. Skoðið því næst fótleggina aftanverða og fæturna, iljarnar og milli tánna.

3. Skoðið hálsinn aftanverðan og hársvörðinn með handspegli. Skiptið hárinu eða notið hárþurrku til að lyfta því.

4. Skoðið loks bak og þjóhnappa með handspegli.

Ráð til að verja húðina gegn sólskini

Nota hatt eða skyggni og bol.

  • Vera ljósklæddur.
  • Nota sólvörn með UVA og UVB vörn nr. 15 eða meira.
  • Forðast að vera lengi úti í sól, sérstaklega um miðjan daginn.

Leita skal til læknis vegna bletta sem stækka, breytast eða eru mislitir og/eða vegna sára sem ekki gróa.

Greinin er fengin úr fræðsluriti Krabbameinsfélagsins. Krabb.is 

Höfundar greinar