Kawasaki

Kawasaki sjúkdómurinn er sjaldgæfur en mjög merkilegur sjúkdómur. Honum var fyrst lýst í Japan af lækninum Tomisaku Kawasaki fyrir fáeinum áratugum. Kawasaki sjúkdómurinn hefur síðan greinst um heim allan.

Orsök:

Ekki er að fullu ljóst hvað veldur Kawasaki sjúkdómi. Svo virðist þó sem saman þurfi að fara ákveðin frávik eða óvenjuleg uppbygging ónæmiskerfisins ásamt sýkingu eða annarri örvun kerfisins. Þegar saman koma umrædd ónæmisfrávik og örvun kerfisins, til dæmis með sýkingu, gerir sjúkdómurinn vart við sig.

Kawasaki sjúkdómurinn flokkast með bólgusjúkdómum og leggst hann fyrst og fremst á börn. Hann ræðst á ýmis líffæri, meðal annars húð og augu, en athyglisvert er að bólgan nær oft til ákveðins hluta af kransæðum. Þannig er bólgan mjög sértæk og kemur fram á afmörkuðum svæðum. Áður fyrr, þegar meðferð sjúkdómsins var ómarkviss, olli kransæðabólgan umtalsverðri lífshættu vegna kransæðaþrengsla.

Einkenni:

Helstu einkenni sjúkdómsins eru hár hiti í nokkra daga ásamt sérkennilegum útbrotum, einkum á búk, en einnig á útlimum. Þá fylgja iðulega stækkaðir eitlar ásamt hvarmabólgu. Slímhúðir sjúklinganna eru oft rauðar, þrútnar og litlar sprungur myndast til dæmis í varir. Tunga er oft eldrauð, svo kölluð jarðarberjatunga. Hendur og fætur verða stundum bjúgkenndir og roði sést á iljum og í lófum. Þá gera húðflagnanir vart við sig í framgangi sjúkdómsins.

Sjúkdómurinn getur einnig lagst á önnur líffæri, þar með talið miðtaugakerfi, þvagfæri, meltingarfæri og stoðkerfi. Alvarlegust eru þó áhrif á hjarta og æðar. Eins og fram hefur komið getur sjúkdómurinn valdið bólgu í kransæðum með æðagúlamyndun, sem leitt getur til kransæðastíflu.

Meðferð:

Þó ekki sé vitað nákvæmlega hverjar orsakir sjúkdómsins eru, hafa læknar þó dottið niður á áhrifaríka meðferð. Meðferðin felst í því að gefa sjúklingunum stóra skammta af mótefnum, sem unnin eru úr blóðvatni heilbrigðra einstaklinga. Meðferð þessi ber almennt mjög góðan árangur, einkenni dvína og ganga yfir á skömmum tíma. Langvarandi áhrif sjúkdómsins eru því yfirleitt lítil sem engin.

Kawasaki sjúkdómur greinist reglulega á Íslandi. Nýgengi sjúkdómsins hér er um sex börn ár hvert en nokkrar sveiflur eru þó í nýgengi á milli ára. Árangur meðferðar hefur verið góður og börnunum reitt vel af.

Þessi grein birtist á Vísindavefnum  31.3.2003 og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra

Höfundur greinar