Kossageit- hvað er til ráða?

Efnisyfirlit

Hvað er Kossageit?

Kossageit (impetigo) er húðsýking af völdum bakteríanna staphylokokka eða streptokokka og er tiltölulega algeng. Kossageit er algengast í andliti í kringum nef og bak við eyrun. Ástæðan fyrir því að þetta kallast kossageit er að börn sýkjast mun oftar en fullorðnir. Kossageit er ekki hættuleg en smitast mjög auðveldlega. Kossageit smitast við snertingu og með hlutum sem smituð manneskja deilir með öðrum.

Hver eru einkenni barnasárs?

Rauð útbrot myndast á heilbrigðri húð og í þeim eru blöðrur með vökva eða greftri. Þegar blöðrurnar springa myndast gulleitt hrúður á sárinu. Kláði er einkennandi.

Hverjir eru í smithættu?

Börn og unglingar með húðsjúkdóma, t.d. barnaexem eru í áhættuhóp. Þess vegna er góð umhirða húðarinnar og hreinlæti mjög mikilvæg til að koma í veg fyrir sýkingu.

Hvaða meðferð er beitt við kossageit?

Ef grunur leikur á að barn eða fullorðinn sé smitaður af kossageit ber að hafa samband við lækni sem greinir það og tekur ákvörðun um viðeigandi meðferð.

Auk þess er þvottur með vatni og sápu grundvallaratriði í meðferð sýkingarinnar og hindrar auk þess útbreiðslu hennar! Sárin eru látin þorna vel á eftir.

Meðferð með bakteríudrepandi áburði er einnig beitt. Þá er mikilvægt að skorpurnar séu bleyttar upp og fjarlægðar til þess að áburðurinn komist að bakteríunum sem þrífast undir þeim.

Ef sárin eru útbreidd er kossageit meðhöndluð með fúkkalyfjum í töflu-, dropa eða mixtúruformi.

Mikilvægt er að vera með hreinar hendur og klipptar, snyrtar neglur. Aðstoða þarf barnið við handþvott ef það er smitað og útskýra fyrir því hvers vegna það er miklvægt. Sjá nánar hér að neðan:

Hvað er til ráða?

  • Ef þú eða barnið hefur fengið sýklalyf, er mikilvægt að taka lyfið eftir fyrirmælum læknis og nauðsynlegt er að klára skammtinn. Ástæðan er sú að annars getur sýkingin blossað upp aftur eða bakteríurnar myndað ónæmi fyrir fúkkalyfjum. Því er áríðandi að láta ekki undan þeirri freistingu að hætta að taka lyfin þegar sárin byrja að gróa.
  • Ef á að koma í veg fyrir smit er gott að þvo sárin með vatni og sápu nokkrum sinnum á dag og láta þau þorna vel á milli.
  • Handþvottur eru sérlega mikilvægur, þar sem kossageit smitast við snertingu. Nauðsymlegt er að þvo hendurnar með vatni og sápu í hvert sinn, sem sárin eru snert og áður en matvæli eru handleikin. Hendurnar þarf einnig að þvo áður en þær eru bornar upp að augunum og áður en snert er á öðrum.
  • Sá smitaði á ekki að deila þvottastykkjum, handklæðum, rúmfatnaði né fötum með öðrum.
  • Fyrir börn er sérstaklega mikilvægt að hafa stuttar neglur. Börn hugsa ekki mikið um, hvort þau eru nýbúin að klóra sér áður en þau snerta eitthvað eða einhvern, Því eru hreinar, stuttar neglur liður í sóttvörnum.
  • Þó að kláði sé í sárunum á að reyna að forðast að snerta þau og klóra. Öll snerting eykur hættu á frekari útbreiðslu sýkingarinnar

Hvenær er smithætta um garð gengin?

Hvenær má barnið fara aftur á barnaheimilið? Barnið má fara á barnaheimilið þegar sárin eru orðin þurr og skorpurnar dottnar af. Skólabörn geta venjulega farið í skóla þótt þau hafi kossageit.

Hvenær á að hafa samband við lækni eftir að lyfjagjöf er hafin?

  • Ef kossageit breiðist enn meira út eða verður rauðari og þrútnari.
  • Ef sárin fara ekki að gróa eftir þriggja sólarhringa lyfjameðferð.
  • Ef sótthiti brýst út.
  • Ef lyfin hafa í för með sér óþægindi eða aukaverkanir svo sem útbrot, bólgur eða magaverki.

Greinin var uppfærð 11.mars 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar