Hvað er einkirningasótt?
Einkirningasótt (kossasótt) er veirusýking af völdum Epstein-Barr veirunnar. Sýkingin leggst á einna helst á börn og ungt fólk. Hjá börnum er hún oft einkennalaus en ungt fólk á aldrinum 10-25 ára getur veikst og haft einkenni í töluverðann tíma, jafnvel mánuði. Við smit af völdum þessarrar veiru myndast mótefni sem endast ævilangt. Þess vegna er ekki hægt að fá einkyrningasótt nema einu sinni.Veikindin ganga yfir af sjálfu sér í flestum tilvikum án aukaverkana eða varanlegra afleiðinga. Í 3% tilfella hefur sjúkdómurinn fylgikvilla.
Hver er orsökin?
Ebstein-Barr veiran finnst í munnvatni og því er um svokallað úða eða dropasmit að ræða. Hún getur því smitast milli einstaklinga með kossum og af því dregur hún nafnið kossasótt. Veiran getur einnig borist með andrúmsloftinu. Frá smiti geta liðið margir dagar/vikur þar til einkennin koma fram.
Hver eru einkennin?
Áður en hin raunverulegu sjúkdómseinkenni koma fram geta liðið 1-2 vikur þar sem sjúklingurinn er aðeins með flensueinkenni.
- Hálsbólga með bólgnum hálskirtlum þöktum hvítum þykkum skánum.
- Hiti.
- Mikil þreyta og slappleiki.
- Verkir í vöðvum.
- Höfuðverkur.
- Svitaköst.
- Magaverkir, sem þá geta stafað af miltisstækkun.
- Bólgnir og aumir eitlar í hálsi, handarkrikum og í nárum.
- Stækkun á milta
- Lifrin getur bólgnað og blóðprufur geta sýnt fram á truflun í starfsemi hennar. Fólk getur jafnvel fengið gulu.
- Útbrot geta komið fram
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
Greiningin byggist á sjúkdómseinkennum og blóðsýni. Einnig er hægt að segja til um hvort ákveðin mótefni gegn veirunni séu til staðar sem þá myndi benda til þess að sýking hefði átt sér stað nýlega.
Meðferð og hvað ber að varast?
Það er ekki til nein lyfjameðferð sem hefur áhrif á veiruna sem slíka og beinist meðferð því að meðhöndla einkenni og hugsanlegar aukaverkanir sem hún orsakar. Mikilvægt er að forðast líkamlega áreynslu og oftast mælt með því að sleppa erfiði eins og íþróttaæfingum í fjórar vikur eftir að vera orðinn frískur. Vegna mikillar þreytu líða oft margir mánuðir áður en sjúklingurinn nær fyrri kröftum.
Greinin var birt í febrúar 2014 en hefur verið uppfærð af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur hjúkrunarfræðingi
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar