Algengasta krabbamein íslenskra karla
Efnisyfirlit
Inngangur
Ár hvert greinast hér um 220 karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli og um 50 látast af völdum sjúkdómsins. Tveir af hverjum þremur eru komnir yfir sjötugt þegar meinið greinist og sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur hjá karlmönnum undir fimmtugu. Ef blöðruhálskirtillinn er skoðaður við krufningu hjá karlmönnum sem komnir eru yfir fimmtugt finnast merki krabbameins hjá mörgum og hjá allflestum þeirra sem komnir eru yfir nírætt. Þannig eru krabbameinsbreytingar í blöðruhálskirtlinum algengar án þess að viðkomandi verði nokkurn tímann var við þær. Með tilkomu blóðprófsins PSA (Prostate specific antigen) fyrir um tveimur áratugum hefur fjöldi þeirra sem greinast árlega aukist verulega. Þá hefur tilkoma prófsins, sem og aukin vitund um sjúkdóminn hjá læknum og almenningi, leitt til þess að sjúkdómurinn er í flestum tilvikum staðbundinn við greiningu.
Orsakir: Tengt hormónum
Í flestum tilvikum er ekki vitað hvað veldur sjúkdómnum en tíðnin eykst með hækkandi aldri. Karlhormónið testósterón virðist nauðsynlegt til að þetta krabbamein myndist og vaxi. Meðalaldur við greiningu er rúmlega 70 ár. Hjá tíunda hverjum er meinið ættlægt og áhættan getur að minnsta kosti tvöfaldast ef faðir eða bróðir hefur meinið.
Einkenni: Þrýstingur á þvagrás
Ef krabbameinið er einskorðað við kirtilinn sjálfan og er á lágu stigi eru sjaldnast nein einkenni um sjúkdóminn. Stækki meinið getur það þrýst á þvagrásina og valdið þvagtregðu, tíðum þvaglátum eða jafnvel blóði í þvagi. Góðkynja sjúkdómar í blöðruhálskirtli eru þó algengasta orsök slíkra einkenna. Dreifist krabbameinið um líkamann getur það valdið slappleika og beinverkjum.
Greining: Þreifing og sýnataka
Oft er hægt að finna krabbameinsvöxtinn með þreifingu um endaþarm og þá er tekið sýni með fínni nál til þess að staðfesta sjúkdómsgreininguna. Myndgreining, svo sem ómskoðun um endaþarm, sneiðmyndataka, segulómun og ísótóparannsókn af beinum (beinaskann), er síðan, eftir atvikum, notuð til að kanna útbreiðslu sjúkdómsins.
Blóðprófið PSA mælir efni sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Blóðprófið er næmt og getur gefið vísbendingu um sjúkdóminn en greinir hann þó ekki eitt sér. Hækkuð gildi geta líka komið fram af öðrum ástæðum, til dæmis við sýkingar í blöðruhálsi og góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli, en líkur á henni aukast með hækkandi aldri.
Meðferð: Vöktuð bið, geislameðferð eða aðgerð
Sé sjúkdómurinn staðbundinn kemur til greina að fylgjast einungis með viðkomandi einstaklingi og veita ekki meðferð nema sjúkdómurinn ágerist. Sú nálgun er kölluð vöktuð bið. Regluleg þreifing kirtilsins, PSA-mæling og jafnvel sýnataka úr kirtlinum er notuð til þess að meta framgang sjúkdómsins.
Til þess að lækna staðbundinn sjúkdóm kemur aðallega tvennt til greina: Geislameðferð eða brottnám kirtilsins með skurðaðgerð. Hefðbundið er að gefa ytri geislameðferð og fjarlægja kirtilinn um tíu sentimetra langan skurð á milli lífbeins og nafla. Stundum er beitt svokallaðri innri geislameðferð þar sem geislavirkum kornum er komið fyrir í kirtlinum. Þá er einnig hægt að fjarlægja kirtilinn í kviðsjáraðgerð með aðstoð þjarka (robot). Báðar meðferðirnar geta leitt til aukaverkana, svo sem getuleysis og þvagleka. Það stafar af því að þvaglokan er rétt fyrir neðan blöðruhálskirtilinn og taugar og æðar sem fara niður til getnaðarlims liggja þétt við kirtilinn svo erfitt er að hlífa þeim við aðgerðina. Önnur meðferð við staðbundnum sjúkdómi telst vera á tilraunastigi svo sem hitameðferð eða frysting kirtilsins.
Ef sjúkdómurinn er þegar útbreiddur við greiningu eru horfur lakari en við staðbundinn sjúkdóm. Þrátt fyrir það má búast við góðri svörun með svokallaðri hormónahvarfsmeðferð sem byggist á því að fjarlægja eða hindra virkni karlhormónsins (testósterón) á krabbameinsfrumurnar. Þessi meðferð hefur í för með sér kyndeyfð og hugsanlega svitakóf en ekki verður nein breyting á útliti karlmanna eða rödd þrátt fyrir meðferðina.
Horfur: Útbreiðslan skiptir máli
Horfurnar fara eftir útbreiðslu sjúkdómsins og eins getur gangur hans verið mjög misjafn eftir einstaklingum. Í stórum dráttum fer þetta eftir því hvort meinið er staðbundið við greiningu eða hvort það hefur dreift sér til eitla eða beina. Mestar líkur eru til þess að hægt sé að uppræta sjúkdóminn, með skurðaðgerð eða geislameðferð, greinist hann á byrjunarreit. Þó ber þess að geta að á því stigi kann meinið að vera svo atkvæðalítið að meðferð sé með öllu óþörf. Í flestum tilvikum er sjúkdómurinn hægfara og veldur jafnvel aldrei einkennum, einkum ef hann greinist staðbundinn hjá eldri karlmönnum. Þeim endist oft ekki aldur til að sjúkdómurinn nái sér á strik.
Nú geta rúmlega 80% þeirra sem greinast með sjúkdóminn vænst þess að lifa í fimm ár eða lengur en fyrir fjórum áratugum var þetta hlutfall rúmlega 40%. Í lok ársins 2008 voru á lífi um 1680 karlar sem höfðu greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli.
Forvarnir: Hópleit ekki talin fýsileg
Ekki er, enn sem komið er, talið fýsilegt að leita að þessu krabbameini með skipulegum hætti eins og leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini hjá konum og kemur aðallega tvennt til: Í fyrsta lagi greinist krabbamein í blöðruhálskirtli oftast hjá rosknum karlmönnum og ekki er víst að greining við hópleit bæti líf þeirra, enda gætu ýmsir aðrir sjúkdómar orðið fyrri til að valda einkennum eða dauða. Í öðru lagi má gera ráð fyrir að í hópleit fyndust krabbamein sem hefðu ekki fundist ella og aldrei valdið einkennum og því engin þörf að bregðast við þeim. Þannig þyrftu margir að fara í meðferð að óþörfu, með tilheyrandi skerðingu á lífsgæðum.
Enda þótt hóprannsókn sé ekki talin fýsileg er sjálfsagt fyrir karlmenn að leita læknis ef einkenni eru frá þvagfærum og einnig ef nákominn ættingi hefur greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. Neysla dýrafitu og rauðs kjöts er talin auka hættu á að fá sjúkdóminn. Regluleg hreyfing, hófleg líkamsþyngd og neysla grænmetis er talið minnka áhættuna.
Einkennalausir karlmenn geta að sjálfsögðu leitað læknis til að láta skoða sig og rannsaka með tilliti til þessa krabbameins. Mælt er með því að karlmenn fari í skoðun eftir fimmtugt, en eftir fertugt ef sterk ættarsaga um krabbameinið er fyrir hendi. Mikilvægt er þó að karlmenn hafi í huga hvaða ákvarðanir þarf að taka ef sjúkdómurinn greinist hjá þeim á byrjunarstigi.
Höfundur: Eiríkur Jónsson, þvagfæraskurðlæknir.
Útgefandi: Krabbameinsfélag Reykjavíkur fyrir hönd krabbameinssamtakanna.
Efni úr fræðslubæklingi um blöðruhálskrabbamein og birt með góðfúslegur leyfi
Höfundur greinar
Eiríkur Jónsson, þvagfæraskurðlæknir
Allar færslur höfundar