Kvef

Efnisyfirlit

Hvað er kvef

Allir þekkja byrjunareinkenni kvefs sem er einn algengasti sjúkdómurinn sem hrjáir mannkynið. Sjúkdómurinn byrjar með særindum og kláða í hálsi, hnerrum og nefrennsli. Kvef er hvimleiður en tiltölulega meinlaus sjúkdómur og stendur að meðaltali í 7–10 daga.

Hver er orsök kvefs

Veirur valda kvefi og eru þekktir fleiri en 200 veirustofnar sem geta valdið sjúkdómnum.

Rhinovirusar eru virkastir á vorin, sumrin og haustin og valda sjaldan alvarlegum einkennum.  Af þeim eru til meira en 100 tegundir. Þessi veirutegund veldur um 30–50% af öllum kvefsýkingum.

Coronavirusar eru virkastir á veturna og vorin og valda þá kvefi, af þeim eru þekktir fleiri en 30 stofnar.

Á haustin og veturna eru það parainfluenza, RS-veiran og influenzuveirur sem valda þá gjarnan svæsnari sýkingum.

Hvernig smitast kvef?

Veirurnar berast með úðasmiti milli manna, en geta einnig borist milli manna með snertismiti og því er mikilvægt að skýla öndunarfærum þegar hóstað er eða hnerrað til að koma í veg fyrir smit. Handþvottur er talin árangursríkasta vörnin við að draga úr smiti. Einkenni koma fram 1–3 dögum eftir smit og byrja sem særidi og kláði í hálsi, hnerrar, nefrennsli, höfuðverkur og slappleiki, en sjaldgæft er að hiti fylgi. Flestir eru orðnir góðir eftir um viku tíma. Ef kvefeinkenni eru að síendurtaka sig og standa lengur en 2 vikur í einu er rétt að hyggja að hvort ekki geti verið um ofnæmi að ræða frekar en kvef.

Hverjir eru það sem helst fá kvef

Kvef er algengast í börnum og er talið að hvert barn fái kvef 6–10 sinnum á ári. Sjúkdómurinn er einnig algengur meðal fullorðinna, misjafnt er hversu oft fullorðnir fá kvef, en 4 sinnum á ári er nálægt meðaltali. Kvef er ein algengasta ástæða fyrir því að fólk leitar til heimilislæknis og margir vinnudagar tapast á ári vegna veikinda af völdum kvefs.

Þrátt fyrir að kuldi valdi ekki kvefi er það samt þannig að tíðni kvefs fer að vaxa í september og vex smám saman á nokkrum vikum en tilfellum fer ekki fækkandi fyrr en kemur fram í mars eða apríl.

Það sem hefur hugsanlega áhrif er að skólar hefja starfsemi á þessum tíma sem auðveldar smit, kalt er úti og fólk eyðir meiri tíma innan dyra í nálægð við hvort annað og smit berst því auðveldlega. Með kulda lækkar rakastig en það veldur því að slímhúðir í nefi þorna og veirurnar eiga því auðveldara með að sýkja auk þess sem þessar veirur lifa betur í þurru lofti.

Þættir sem taldir eru geta stuðlað að því að einstaklingur er viðkvæmari fyrir því að sýkjast af kvefi eru líkamleg þreyta og andlegt álag og einnig sýkjast þeir sem hafa ofnæmisjúkdóma í öndunarfærum og konur í miðjum tíðahring frekar.

Hver er meðferðin

Ekki eru enn á markaði lyf sem læknað geta kvef og ekki eru líkur á að takist að framleiða bóluefni gegn kvefi í nánustu framtíð. Því byggist meðferð við kvefi á fyrirbyggjandi aðgerðum og að draga úr einkennum og þeim óþægindum sem þau valda.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Handþvottur er einfaldur og mjög áhrifarík leið til að forðast smit.

Gæta vel að ónæmiskerfinu, sem þýðir að gæta þarf að því að fá nægan svefn, borða reglulega og hollan mat.

Allir íbúar á Íslandi ættu að taka D-vítamín a.m.k. yfir dimmustu mánuðina.

Konur á barneignaraldri þurfa að gæta vel að járnbúskap.

Forðast að koma við nef og augu sjúklinga eða fá á sig slím frá þessum stöðum.

Þeir sem eru sýktir eiga alltaf að hósta, hnerra og snýta sér í einnota pappírsþurrkur og henda þeim strax til að koma í veg fyrir smit

Meðhöndlun einkenna

Hvíld er mikilvæg og einnig er nauðsynlegt að drekka nægilega mikið af vökva.

Skola nefgöng með saltvatni. Einnig er hægt að nota lyf sem minnka nefstíflur og fást án lyfseðils í öllum lyfjaverslunum.

Anda að sér gufu.

Hóstasaft

Heitt vatn með sítrónu og hunangi.

Verkjastillandi lyf til að lina höfuðverk og lækka hita.

Antihistamín eru einnig notuð til að minnka rennsli úr nefi og augum í sérstökum tilvikum.

Sýklalyf hafa engin áhrif á veirur og það hefur því engan tilgang að nota þau nema þegar um síðkomnar bakteríusýkingar er að ræða.

Hverjir eru helstu fylgikvillar?

Helstu fylgikvillar eru síðkomnar bakteríusýkingar sem valda þá gjarnan berkjubólgu, skútabólgu, eyrnabólgu og jafnvel lungnabólgu. Þá fylgir gjarnan hiti og bólgnir eitlar og mikilvægt er að leita læknis til að fá viðeigandi meðferð með sýklalyfjum.

Greinin birtist fyrst 10.desember 2013

Höfundur greinar