Lekandi

Hvað er lekandi?
Lekandi er kynsjúkdómur sem stafar af bakteríunni Neisseria gonorroheae, en bakterían tekur sér bólfestu í kynfærum, þvagrás, endaþarmi eða hálsi.

Hvernig smitast lekandi?
Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð kemst í snertingu við slímhúð bólfélagans. Smitun getur einnig átt sér stað við endaþarms- og munnmök.

Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt.

Er lekandi hættulegur?
Lekandi er alvarlegur sjúkdómur því hann getur valdið ófrjósemi eins og klamydía. Þetta á bæði við um konur og karla. Lekandi getur einnig valdið sýkingu og bólgu í liðum, augnsýkingum og í verstu tilvikum sýkingu í eggjaleiðurum og kviðarholi.

Hver eru einkenni lekanda?
Einkenni lekanda eru svipuð og einkenni klamydíu, en einkennin og bólgurnar eru gjarnan meiri en í klamydíu. Lekandi getur líka verið einkennalaus. Venjuleg einkenni eru breyting á lit og lykt á útferð úr leggöngum eða þvagrás, sársauki við þvaglát (eins og að pissa rakvélarblöðum ) eða verkur í grindarholi, hjá bæði konum og körlum.

Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?
Fáir þú einkenni koma þau oftast fram einum til sjö dögum eftir smit en geta komið fram síðar.

Hvernig er hægt að greina lekanda?
Hægt er að staðfesta lekanda með ræktun frá stroksýni úr þvagrás, leghálsi, þvagi eða endaþarmi eftir aðstæðum.

Er hægt að fá meðferð við lekanda?
Notuð eru sýklalyf við lekanda. Margir stofnar lekandabakteríunnar eru ónæmir gegn ýmsum sýklalyfjum. Þess vegna er nauðsynlegt að taka sýni til ræktunar til að kanna næmi bakteríunnar fyrir sýklalyfjum svo hægt sé að tryggja að rétt sýklalyf hafi verið valið. Þú verður alltaf að fara í skoðun eftir meðferðina til að tryggja árangur hennar.

Hvað með þá sem ég hef sofið hjá?
Hafir þú sofið hjá einhverjum síðasta árið frá smiti, eru miklar líkur á því að einhverjir þeirra hafi smitast af lekanda. Því er mikilvægt að fyrri bólfélagar séu látnir vita svo þeir geti fengið meðhöndlun ef þörf er á. Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða beðið lækninn um að skrifa þeim án þess að nafn þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga.

Með því að hvetja þá sem þú hefur sofið hjá til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti þá sem þeir sofa hjá í framtíðinni. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.

 

Birt með góðfúslegu leyfi Embættis Landlæknis,

Uppfært 20.08. 2019

Höfundur greinar