Miltisbrandur

Miltisbrandur er Íslendingum ekki með öllu ókunnur því hann kom fyrst til landsins á 19. öld og olli hér nokkrum búsifjum og sýkingum meðal manna. Sjúkdómnum veldur sýkill að nafni Bacillus anthracis. Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar, sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn, eru nefndir súnur (zoonosis).

Sýkillinn getur myndað dvalargró eða spora sem geta lifað áratugum saman í jarðvegi. Þegar sporar komast í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi.

Heimildir um urðun sýktra dýra á Íslandi eru ýmist ekki til eða ónákvæmar. Þess vegna er ekki loku fyrir það skotið að sjúkdómurinn eigi eftir að skjóta upp kollinum hér á landi að nýju, einkum við jarðrask þar sem sýkt dýr voru urðuð.

Miltisbrandssýkillinn hefur lengi verið talinn kjörinn til notkunar í hernaði og hryðjuverkastarfsemi. Flestum er kunnugt um bréfin í Bandaríkjunum haustið 2001 sem innihéldu miltisbrandsgró. Einnig er mögulegt að dreifa miltisbrandi yfir stærri svæði, ýmist innan- eða utanhúss, og með þeim hætti má sýkja fjölda manns á stuttum tíma.

Miltisbrandur er nánast með öllu horfinn sem sjúkdómur í mönnum í hinum vestræna heimi. Í þróunarlöndunum koma fyrir tilfelli bæði í dýrum og mönnum.

Einkenni
Einkenni miltisbrands ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Algengasta smitleið sýkilsins til manna er gegnum húð sem er rofin. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu. Sýkillinn veldur kýlum sem síðar rofna og eru þá með svörtum sárbotni vegna dreps. Húðsýking er vægasta mynd sýkingarinnar og leiðir til dauða í 20% tilfella ef hún er ekki meðhöndluð. Meðgöngutími húðsýkingar er 3-5 dagar.

Neysla mengaðrar fæðu getur leitt til sýkingar í meltingarfærum eða hálsi. Einkenni í byrjun eru almenns eðlis en geta síðan þróast yfir í alvarleg einkenni frá meltingarfærum eða hálsi með fylgjandi blóðþrýstingsfalli og dauða. Í mönnum kemur sýkingin oftast eftir neyslu kjöts af sýktu dýri. Meðgöngutími sýkingar er 3-7 dagar.

Loks geta sporar sýkilsins borist í öndunarveg og þaðan komist í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu. Þetta er sú smitleið sem helst er notuð til að dreifa miltisbrandi í hernaði og hryðjuverkastarfsemi. Við náttúrulegt öndunarfærasmit hafa starfsmenn í ullariðnaði reynst í mestri áhættu.

Fyrstu einkenni lungnasmits eru lík inflúensu með hita vöðvaverk, höfuðverk, þurrum hósta og smávægilegum óþægindum fyrir brjósti sem vara í örfáa daga. Næstu 1-3 daga eftir upphafseinkenni líður sjúklingi betur en versnar svo skyndilega með háum hita, andnauð og losti. Oft má sjá bjúg á brjóstkassanum og geta sjúklingar fengið blæðandi heilahimnubólgu. Meðgöngutími frá lungnasmiti þar til einkenni gera vart við sig er oftast 1-6 dagar en getur verið lengri allt að 43 dagar.

Smitleiðir
Sýkillinn berst í menn og dýr úr menguðum jarðvegi, vef úr sýktum dýrum, ull, dýraskinnum og öðru sem getur mengast með miltisbrandsgróum. Smit á rannsóknarstofum hafa átt sér stað. Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli.

Meðferð og horfur
Upphafseinkenni sjúkdómsins eru almenns eðlis og seinkar það því að meðferð hefjist. Allir með lungnasýkingu, sem fá ekki viðeigandi meðferð, deyja og talið er að allt að 95% sýktra deyi ef meira en 48 klukkustundir líða frá því að einkenni hófust þar til meðferð hefst. Sýkillinn er næmur fyrir ýmsum algengum sýklalyfjum. Þó má búast við að stofnar sem notaðir eru í sýklavopn geti verið ónæmir fyrir sýklalyfjum.

Forvarnir
Gefa má sýklalyf í forvarnarskyni þar til hætta á sýkingu er liðin hjá. Bóluefni er til gegn þessum sjúkdómi, en ending varnaráhrifa frá bólusetningu er hins vegar stutt.

Nánari upplýsingar er að finna í greininni Hvað er miltisbrandur sem birtist á Vísindavef Háskóla Íslands 2. október 2000.

Tölfræðilegar upplýsingar um Miltisbrand 

Greinin er fengin af vef Landlæknis og birtist með góðfúslegu leyfi

uppfært 02.05.2017

Höfundur greinar