Mislingar er veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Hann getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða.
Faraldsfræði
Mislingar var algengur sjúkdómur á meðal barna hér á árum áður. Eftir að farið var að bólusetja gegn honum hefur dregið mjög úr algengi hans í hinum vestræna heimi. Flest börn með mislinga verða ekki alvarlega veik en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá hættulega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.
Mislingafaraldur hefur geisað í Evrópu undanfarin 3 ár. Um 45.000 tilfelli hafa greinst í 30 löndum sem taka þátt í samstarfi sóttvarnastofnunar Evrópu. Flest tilfelli hafa komið upp í Rúmeníu en einnig hefur mikill fjöldi tilfella komið upp í Grikklandi, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Bretlandi, Póllandi og Belgíu og hafa dauðsföll verið heldur algengari en almennt er búist við í mislingafaröldrum. Dánartíðni er hæst hjá ungbörnum sem oft eru óbólusett vegna aldurs. Mikill meirihluti tilfella hefur verið hjá óbólusettum í þessum stóra faraldri, á öllum aldri. Mörg Evrópulönd, þ.á m. Ísland, hafa séð innflutt tilfelli á sama tímabili, bæði frá Evrópu og öðrum heimsálfum. Útbreiðsla mislinga út fyrir fjölskyldu fyrsta tilfellisins varð hér á landi í febrúar og mars 2019, í fyrsta skipti eftir að mislingum var útrýmt hér á landi.
Smitleiðir og meðgöngutími
Mislingaveiran er mjög smitandi. Hún smitast oftast með úða frá öndunarfærum (hnerra/hósta) og snertingu við sjúkling, en mislingaveiran er ein af mjög fáum sýklum sem smitast með andrúmslofti því veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið. Einstaklingar með mislinga eru smitandi u.þ.b. sólarhring áður en þeir fá einkenni og í um 6 daga eftir að einkenni koma fram. Algengast er að smitaðir fái einkenni 10-12 dögum eftir smit en það getur tekið frá einni og upp í þrjár vikur eftir smit.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oft með flensulíkum einkennum þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Ung börn (<5 ára) fá oft niðurgang. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3–4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna. Á fyrsta sólarhring útbrota má oft sjá hvíta punkta í munnslímhúð, svokallaða Koplik bletti, sem eru séreinkenni mislinga og gagnlegir til að aðgreina mislinga frá öðrum útbrotasjúkdómum.
Mislingaveiran getur verið hættuleg og jafnvel valdið dauða. Veiran sjálf getur ráðist á lungu eða heila og niðurgangur getur verið mikill og valdið ofþornun, sérstaklega hjá yngstu börnunum, ef ekkert er að gert. Einnig veldur mislingaveiran blindu ef sjúklingur hefur ekki nægilegan forða af A vítamíni þegar sýkingin á sér stað. Í kjölfar mislinga er vel þekkt að aðrar sýkingar komi upp, oftast eyrnabólga eða lungnabólga, en einnig aðrar sýkingar, sumar lífshættulegar. Alvarlegar heilaskemmdir geta í sjaldgæfum tilfellum komið fram eftir mislingasýkingu (síðkomið heilahersli; e. subacute sclerosing panencephalitis).
Greining
Einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum, rétt er að hafa samband við lækni til að fá staðfestingu á að um mislinga sé að ræða. Best er að tekið sé sýni úr nefkoki í leit að erfðaefni mislinga en einnig er hægt að rækta mislingaveiruna úr slíku sýni eða senda blóð í blóðvatnspróf. Blóðrannsókn nýtist helst til greiningar sjúkdóms hjá óbólusettum og getur þurft að endurtaka eftir að veikindi eru gengin yfir til að staðfesta greininguna.
Meðferð
Sýklalyf gagnast lítið gegn mislingum þó getur verið nauðsynlegt að meðhöndla sýkingar sem eru afleiðingar af sjálfum sjúkdómnum með sýklalyfjum. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu, sérstaklega A vítamíni á þeim svæðum þar sem skortur á því er algengur. Hitalækkandi lyf geta hjálpað sjúklingnum að líða betur og stuðlað að betri vökvainntöku hjá ungum börnum.
Forvarnir
Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% langtímavörn. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum og er 95% á aldursbilinu 2ja ára til 18 ára. Góð þátttaka Íslendinga í bólusetningu dregur úr hættunni á að mislingar berist til landsins í tengslum við ferðalög eins og gerst hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má hindra að þessi alvarlegi smitsjúkdómur nái útbreiðslu í landinu ef hann berst hingað.
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af mislingum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Sjá nánar:
http://ecdc.europa.eu/en/healthtopics/measles/Pages/index.aspx Opnast í nýjum glugga
http://medicalcenter.osu.edu/patientcare/healthcare_services/infectious_diseases/measles/Pages/index.aspx Opnast í nýjum glugga
Greinin er fengin af síðu landlæknis og birt með góðfúslegu leyfi þeirra Landlaeknir.is
Uppfært 17.07.2017
Höfundur greinar
Landlæknir
landlaeknir.is
Allar færslur höfundar