Münchausenheilkenni

Svokallaður Münchausensjúkdómur eða Münchausenheilkenni lýsir sér þannig að sjúklingur þykist vera alvarlega veikur án þess að það þjóni neinum augljósum tilgangi öðrum en þeim að vera lagður inn á spítala og rannsakaður í bak og fyrir. Heilkennið er nefnt eftir Münchausen barón (1720-1797) sem vann sér það helst til frægðar að ýkja og skreyta fram úr hófi sögur af ferðalögum sínum um heiminn.

Fólk sem þjáist af Münchausenheilkenni gerir sér ekki upp veikindi til að sleppa við vinnu, lögsókn eða forðast kröfur samfélagsins með nokkrum hætti. Þessir einstaklingar trúa því heldur ekki sjálfir að þeir séu alvarlega veikir og því er ekki um ímyndunarveiki að ræða. Frekar er talið að þessu fólki líki einfaldlega vel við hlutverk sjúklingsins og að það sækist eftir þeirri athygli og samúð sem yfirleitt fylgir veikindum.

Þeir sem haldnir eru Münchausenheilkenni ganga yfirleitt mjög langt til að gabba ættingja sína, vini, lækna og hjúkrunarfólk. Þeir skaða oft sjálfan sig til að það sjáist á þeim áverkar þannig að læknisfræðilegar rannsóknir gefi til kynna að eitthvað sé að. Dæmi eru um að fólk hafi sprautað lofti undir húð sína til að gera sér upp bólgur og að það hafi viljandi innbyrt eitur til að verða sjáanlega lasburða. Einnig eru dæmi um að það láti sér blæða verulega til að búa sér til alvarlegt blóðleysi sem það síðan segist ekki hafa hugmynd um hvernig standi á. Slíkt verður að sjálfsögðu oftast til þess að læknar og hjúkrunarfólk finna enga skýra orsök fyrir einkennum sjúklinganna þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir.

Nokkuð algengt er að fólk geri sér upp veikindi. Jafnvel er talið að allt að því einn af hverjum hundrað sem lagðir eru inn á spítala ýki eigin veikindi verulega. Münchausenheilkenni, þar sem uppgerðin þjónar ekki hagnýtum tilgangi, er þó sennilega afar sjaldgæft þótt engar opinberar tölur séu til um algengi þess.

Münchausenheilkenni er einnig til í annarri og alvarlegri mynd en þeirri sem fjallað hefur verið um hér á undan. Þessa mynd þess mætti kalla Münchausenheilkenni staðgengils (Munchausen syndrome by proxy, MSBP). Það lýsir sér þannig að foreldrar eða forráðamenn gera börnum sínum upp veikindi eða framkalla jafnvel veikindi hjá þeim. Þetta gera þeir til að geta leikið hlutverk umönnunaraðila alvarlega veiks sjúklings og fá þá athygli, samúð og aðdáun sem slíkt fólk á skilið. Flest dæmi eru um að mæður geri dætrum sínum upp veikindi.

Frægasta tilfelli af MSBP er sennilega saga Jennifer Bush, bandarískrar stúlku sem var lögð inn á sjúkrahús rúmlega 200 sinnum og gekkst undir um 40 skurðaðgerðir. Síðar kom í ljós að öll veikindi Jennifer urðu til fyrir tilstilli móður hennar sem viljandi eitraði fyrir henni og olli henni ýmsum sýkingum. Móðir Jennifer Bush fékk fjölmargar opinberar viðurkenningar fyrir að standa sig frábærlega vel sem móðir alvarlega veiks barns áður en gróf misnotkun hennar á dóttur sinni uppgötvaðist.

Nokkur hundruð tilfelli af MSBP eru skráð og hefur um 9% fórnarlambanna látist.

Greinin birtist á Vísindavef HÍ og birtist hér með góðfúslegu leyfi

Höfundur greinar