Njálgur

Njálgur er lítill, hvítur hringormur sem er algeng sýking hjá fólki á öllum aldri en algengastur hjá börnum og á stofnunum þar sem mörg börn koma saman t.d. leikskólum og skólum og hjá aðstandendum þeirra sem sýkjast.Hann er talinn vera eitt fárra landlægra sníkjudýra í mönnum á Íslandi og hefur verið það frá landnámstíð. Til að ráða niðurlögum njálgsmits þarf skerpt hreinlæti og lyfjagjöf. Njálgur er skráningarskyldur sjúkdómur sem þýðir að sóttvarnalæknir safnar upplýsingum um tíðni hans án persónuauðkenna þeirra sem sýkjast.

Efnisyfirlit

Áhættuþættir og Faraldsfræði

Þeir sem eru líklegastir til að smitast af njálgi eru börn yngri en 18 ára, umönnunaraðilar þeirra og fólk sem dvelur á stofnunum. Maðurinn er eini hýsill njálgs. Gæludýr s.s. hundar og kettir geta ekki smitast.

Lífsferill

Eftir að njálgsegg hafa verið gleypt klekjast þau út í smágirninu og þróast þar yfir í fullorðin dýr og færa sig síðan í ristilinn. Þessi þroskaferill tekur einn mánuð en heildarlíftími njálgs er talinn geta verið tveir mánuðir. Í útliti er njálgur hvítur, lítill og viðkvæmur hringormur. Fullorðið kvendýr er 8–13 mm langt og 0,5 mm þykkt. Fullorðið karldýr er 2–5 mm langt og 0,2 mm þykkt. Eftir kynmök drepast karldýrin en kvendýrin flytja sig niður í ristilinn og í endaþarminn. Þar fara þau út á yfirborðið, vanalega við svefn að nóttu til, og verpa miklu magni af eggjum á svæðið umhverfis endaþarminn. Að því búnu drepast þau. Eggin eru aflöng, hálfgegnsæ með þykka skel með flatri hlið og ekki greinanleg með berum augum. Í hverju eggi er lirfa sem getur verið orðið smitandi 4–6 klst. eftir klak. Í sumum tilfellum klekjast egg út á svæðinu umhverfis endaþarminn og skríða lirfurnar þá inn um endaþarminn, upp ristilinn og í smágirnið þar sem þær þroskast áður en þær fara aftur niður í ristilinn. Við varpið verður erting og kláði við endaþarminn og sá sýkti fer að klóra sér og getur þannig fengið egg á fingurna og dreift þeim í umhverfið við snertingu.

Smitleiðir

Sýking verður þegar njálgsegg komast í meltingarveg eftir að hafa borist í munn og verið kyngt. Sjálfssýking og viðhald sýkingar verður þegar egg berast í munn með höndum sem hafa klórað á endaþarmssvæði eða fengið á sig egg með snertingu við önnur menguð svæði. Eggin geta borist yfir í nærfatnað, rúmföt, hurðarhúna, leikföng og í umhverfið og berast auðveldlega milli fjölskyldumeðlima og leikfélaga við snertingu. Í einhverjum tilfellum geta einstaka egg orðið loftborin og komist þannig í öndunarfæri og munn og þaðan í meltingarveg með kyngingu. Það fer eftir hita- og rakastigi umhverfisins hversu lengi njálgsegg eru smitandi. Í röku og köldu umhverfi geta lirfurnar lifað í allt að 2–3 vikur í eggjunum en í heitu og þurru lofti drepast þær mun fyrr. Rannsóknir hafa sýnt að lirfur í 90% njálgseggja eru dauðar eftir tvo daga í stofuhita.

Einkenni smits

Njálgsmit er oft einkennalaust (hjá einum af hverjum þremur) en kláði við endaþarm er helsta einkennið. Kláðinn ágerist á nóttunni og getur valdið svefntruflunum. Ef hinn sýkti klórar sér mikið getur húðin orðið rauð og aum og sýkst af bakteríum. Ef njálgssýkingin er mikil þ.e. mjög mikið af ormum, getur hún lýst sér með lystarleysi, kviðverkjum og uppköstum. Önnur einkenni sem komið geta fram eru pirringur, óróleiki, tanngnístur, svefntruflanir og minnkuð matarlyst.

Greining

Þegar grunur er um njálgsýkingu eru þrjár aðferðir til að greina smitið:

  • Ef um barn er að ræða geta foreldrar skoðað svæðið umhverfis endaþarminn 2–3 klst. eftir að barnið er sofnað t.d. með því að lýsa á svæðið með vasaljósi eða skoða endaþarmsopið snemma að morgni áður en barnið vaknar. Oft er þá hægt að sjá orma við endaþarmsopið og stundum sjást þeir utan á saur. Eggin er hins vegar ekki hægt að sjá með berum augum.
  • Önnur greiningaraðferð er að þrýsta límbandi að húðinni við endaþarmsopið strax og viðkomandi vaknar til að fanga egg og skoða límbandið síðan í smásjá. Ef viðkomandi er smitaður sjást egg á límbandinu. Límbandsprófið ætti að endurtaka þrjá morgna í röð, strax og viðkomandi vaknar og áður en þvottur á sér stað, því fjöldi orma getur verið misjafn milli daga og mismikið getur verið af eggjum við endaþarminn.
  • Þriðja greiningaraðferðin væri að taka skaf undan nöglum hjá þeim sýkta og skoða það í smásjá í leit að eggjum.

Hægðasýni gagnast ekki til greiningar á njálgssmiti því lítið er af ormum og eggjum í hægðum. Ekki er til aðferð til greiningar á njálgssmiti með blóðprófi.

Meðferð

Til að ráða niðurlögum njálgs þarf lyfjameðferð og eru tvö lyf skráð hér á landi, Vanquin og Vermox og er hvort tveggja til sem töflur og mixtúra. Vanquin er selt í lausasölu í apótekum en til að fá Vermox þarf lyfseðil frá lækni. Lyfin eru yfirleitt tekin tvisvar þ.e. fyrst einn skammtur og síðan annar skammtur 2 vikum síðar.

Vanquin (pyrvínembónat) hefur sérhæfða verkun gegn njálgi. Lyfið drepur bæði njálginn og lirfur hans og kemur þannig í veg fyrir að smitandi egg verði til. Lyfið hefur ekki áhrif á þau egg sem þegar eru til og er mikilvægt að hafa það í huga við meðhöndlun, því endursýking er algeng vegna þess að lifandi egg halda áfram að berast út úr líkamanum með hægðum í allt að 2 vikur eftir lyfjagjöf. Vegna lífsferils njálgs er ráðlagt að allir fjölskyldumeðlimir og nánir leikfélagar séu meðhöndlaðir á sama tíma og að allir endurtaki meðferðina 2–3 vikum síðar til að koma í veg fyrir áframhaldandi smitun. Skömmtun lyfsins er miðuð við 1 töflu eða 5 ml af mixtúru á hver 10 kg líkamsþyngdar. Fullorðin manneskja tekur mest 8 töflur og skulu þær allar teknar inn í einum skammti. Virka efnið í Vanquin er sterkt litarefni og litar hægðir rauðar. Liturinn festist auðveldlega í fötum og húsgögnum ef mixtúran hellist niður eða er kastað upp. Gleypa skal töflurnar en ekki tyggja þar sem þær geta litað tennur og munn. Aukaverkanir af lyfinu eru helstar ógleði og einstaka sinnum uppköst og þá frekar eftir inntöku mixtúrunnar. Magaverkir og niðurgangur þekkjast sem aukaverkun. Ofnæmi er sjaldgæft.

Vermox (mebendazól) er breiðvirkara lyf og virkar gegn fleiri ormategundum með því að trufla meltingarstarfsemi þeirra og hindra þroskun eggja. Meðferðina má endurtaka með 2–3ja vikna millibili. Meðhöndla ber alla í fjölskyldunni samtímis. Lítil reynsla er af notkun lyfsins hjá börnum yngri en 2 ára en skammtar eru annars hinir sömu og hjá fullorðnum. Ekki er vitað um áhrif lyfsins á barnshafandi konur og því er þeim ekki ráðlagt að nota lyfið. Lyfið getur valdið tímabundnum kviðverkjum og ofnæmisviðbrögðum hefur verið lýst.

Endurteknar sýkingar ætti að meðhöndla eins og þá fyrstu. Á heimilum þar sem fleiri en einn heimilsmanna er sýktur og sýkingar jafnvel endurtekið að koma upp er mælt með að allir fjölskyldumeðlimir séu meðhöndlaðir á sama tíma. Sama á við um leikfélaga barna. Ef njálgssýkingar gera vart við sig í skólum og á leikskólum, þarf að tilkynna það forráðamönnum barnanna. Ekki eru fastmótaðar reglur til um hvernig skuli bregðast við slíkum aðstæðum en æskilegt er að heilsugæslustöð í næsta nágrenni skólans komi að slíkum málum, gefi ráðleggingar og haldi utan um aðgerðir.

Samfara lyfjameðferð þarf að skerpa á öllu hreinlæti og þrífa á heimilum þeirra sem verið er að meðhöndla. Strax að lokinni fyrstu meðferð þarf að ryksuga rúmdýnur og gólf, skipta um öll handklæði og þvo þau og sængurföt og annan fatnað sem gæti haft í sér njálgsegg.

Aðgerðir til að draga úr dreifingu njálgssmits og endursýkingu

Handþvottur með vatni og sápu og þurrkun með hreinu handklæði eftir salernisferðir, bleiuskipti og fyrir meðhöndlun matar er áhrifaríkasta leiðin til að hindra njálgssmit og koma í veg fyrir áframhaldandi smit. Mikilvægt er að kenna börnum að þvo hendur og sjá til þess að þau geri það.

 

Aðrar mikilvægar aðgerðir til að ráða niðurlögum smits:

  • Bað að morgni dags því það minnkar líkur á dreifingu eggja frá endaþarmi. Sturta er betri en bað í kari því baðvatn getur mengast af eggjum.
  • Hrein nærföt daglega og tíð náttfata- og sængurfataskipti. Hrista ekki tauið, setja það beint í þvottavél og þvo við ≥ 40°C. Æskilegt að þurrka í þurrkara.
  • Ekki klóra húð við endaþarm.
  • Hafa neglur stuttklipptar og hreinar. Ekki naga neglurnar.
  • Gott almennt hreinlæti í umhverfi.
  • Eftir hverja lyfjameðferð þarf að skipta um nærfatnað, náttföt og sængurfatnað.

Heimildir
Skírnisson K. Um njálginn og líffræði hans. Læknablaðið, 1998;84: 208–2013

Centers for Disease Control and Prevention (CDC), 2015. Upplýsingar af heimasíðu: http://www.cdc.gov/parasites/pinworm/index.html 

Lyfjaupplýsingar úr sérlyfjaskrá, 2015. http://serlyfjaskra.is/ 

 

Greinin birtist á vef Landlæknis og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra

Greinin var uppfærð 21.11. 2016

Höfundur greinar