Ofvirkni í bernsku

Ofvirkni er truflun í hegðun og einbeitingu sem fram kemur hjá börnum fyrir 7 ára aldur.Hegðunareinkennum ofvirkni er oft skipt í eftirtalda þrjá flokka:

Hreyfiofvirkni kemur m.a. fram í því að barnið á erfitt með að sitja lengi kyrrt og þegar það situr hættir því til að iða og vera stöðugt á hreyfingu í sæti sínu. Mörg þeirra eru afar málgefin og eiga erfitt með að leika sér hljóðlega.

Athyglisbrestur kemur fram í því að barnið á erfitt með að einbeita sér að verkefnum sem það tekur sér fyrir hendur og ljúka þeim og minnsta truflun dregur athyglina frá því sem verið er að sinna. Þetta á einkum við um verkefni sem krefjast einbeitingar. Athyglisbresturinn kemur einnig fram í gleymsku; ofvirka skólabarnið gleymir og týnir hlutum oftar en önnur börn.

Hvatvísi lýsir sér þannig að ofvirka barninu hættir til að framkvæma það sem því dettur í hug án þess að gefa sér tíma til að hugsa um afleiðingarnar, það er óþolinmótt og á erfitt með að bíða.

Samsetning einkennanna getur verið mismunandi. Hjá einu ofvirku barni er athyglisbrestur mest áberandi, en hreyfiofvirkni og hvatvísi hjá öðru. Flest þessi einkenni sjást reyndar einhvern tíma í fari nánast allra barna, en ekki telst vera um ofvirkni að ræða nema þau séu afgerandi meira áberandi en hjá jafnöldrunum og þau hamli aðlögun barnsins að umhverfi sínu.

Af hverju stafar ofvirkni?

Rannsóknir benda til þess að erfðir eigi stærstan hlut að máli í orsökum ofvirkni. Röskun í taugaþroska veldur truflun í starfi boðefnakerfa sem stjórna atferli, og er það einkum hömlunarþátturinn í atferlisstjórn sem ekki starfar sem skyldi.

Breytast einkennin með aldri?

Ofvirknieinkennin koma snemma fram og um 3–4 ára aldurinn eru þau venjulega orðin nokkuð skýr, einkum hreyfiofvirknin. Athyglisbresturinn virðist koma fram síðar, eða um 5–7 ára aldurinn. Um 8–10 ára aldurinn fer oft að draga nokkuð úr hreyfiofvirkninni, en eftir sitja frekar athyglisbresturinn og hvatvísin. Um 70% þeirra sem greinast með ofvirkni í bernsku eigi enn við hana að stríða á unglingsárum.

Hvaða meðferð kemur að gagni?

Rannsóknir á árangri meðferðar sýna að tvenns konar úrræði gefast best, annars vegar lyfjameðferð og hins vegar atferlismótun.

Algengasta lyfið við ofvirkni er örvandi lyfið Ritalin, en einnig er algengt að nota ákveðnar tegundir þunglyndislyfja. Í atferlismótun er grundvallaratriði að styrkja vel aðlagaða hegðun með því að umbuna kerfisbundið fyrir æskilegt atferli, ekki síst með hrósi og jákvæðri athygli. Í slíkri meðferð er enn fremur leitast við að breyta uppeldisumhverfi barnsins til langframa. Þetta er gert með ráðgjöf við foreldra, m.a. með því að halda þjálfunarnámskeið fyrir þá þar sem viðeigandi uppeldisaðferðir eru kenndar. Kennarar þurfa á sama hátt að fá ráðgjöf um þær aðferðir sem beita má í skólanum.

Greinin birtist fyrst 5. september, 2002

Höfundur greinar