Rauðir hundar

Rauðir hundar er veirusjúkdómur sem veldur oftast vægum einkennum hjá börnum en getur lagst þyngra á fullorðna. Í stöku tilfellum getur þessi veirusýking valdið liðbólgum og heilabólgu hjá heilbrigðum einstaklingum. Veikist kona af rauðum hundum á meðgöngu er hætta á alvarlegum fósturskaða einkum ef það gerist á fyrstu þrem mánuðum meðgöngunnar. Fósturskaði getur verið heyrnarskerðing, blinda, vansköpun, hjartagalli, vaxtarskerðing og jafnvel fósturlát. Hafi stúlka ekki verið bólusett þykir það kostur að hún fái sjúkdóminn áður en hún verður kynþroska.

Efnisyfirlit

Faraldsfræði

Almenn bólusetning undanfarna áratugi gegn rauðum hundum hefur komið í veg fyrir faraldra af völdum sjúkdómsins hér á landi. Af og til koma þó upp tilfelli á meðal óbólusettra. Þeim sem er hættast er við að fá sjúkdóminn er nokkuð stór hópur óbólusettra karlar sem fæddir eru fyrir 1988 og hafa ekki fengið sjúkdóminn.

Smitleiðir og meðgöngutími

Sjúkdómurinn berst með andrúmsloftinu (úðasmiti) á milli manna og geta liðið tvær til þrjár vikur þar til sjúkdómseinkenni koma fram. Sjúkdómurinn er mest smitandi þegar hann hefur náð hámarki en einnig er hann smitandi vikuna áður en útbrot koma fram og vikuna eftir að þau hverfa.

Einkenni sjúkdómsins

Einkenni geta verið mismunandi eftir einstaklingum en algengustu einkennin eru rauð eða brúnleit útbrot sem byrja oft í kringum eyrun eða í andliti en breiðast síðan fljótt út um líkamann og geta nánast orðið að einni samfelldri hellu. Einnig fylgir oftast vægur hiti, stækkaðir eitlar á hálsi og höfuðverkur. Einkennin ganga vanalega til baka á u.þ.b. þremur dögum. Þessi einkenni geta svipað til annarra veirusjúkdóma eins og mislinga og hlaupabólu. Dæmi eru um að sjúkdómseinkenni geta verið svo væg að viðkomandi verður þeirra ekki var.

Greining

Hægt er að skera úr um hvort um rauða hunda er að ræða með því að taka strok frá hálsi eða með blóðsýni þar sem leitað er mótefna.

Meðferð

Engin sérstök meðferð er við sjúkdómnum önnur en sú að fólki er ráðlagt að hafa hægt um sig meðan sjúkdómurinn gengur yfir. Allir í nánasta umhverfi þess sem veikur er eru í smithættu hafi þeir ekki verið bólusettir gegn rauðum hundum eða fengið sjúkdóminn.

Forvarnir

Með bólusetningu allra í þjóðfélaginu er hægt að hindra að faraldra af rauðum hundum komi upp. Bólusetning gegn rauðum hundum hófst hér á landi árið 1977 hjá konum á barnseignaraldri sem ekki höfðu mótefni gegn veirunni en því fyrirkomulagi var hætt árið 2001. Almenn bólusetning allra 18 mánaða barna hófst árið 1989 með MMR bóluefni. Endurbólusetning hófst síðan hjá 9 ára börnum árið 1997 en árið 2001 var aldur endurbólusetningar hækkaður í 12 ár. Full bólusetning í dag er því við 18 mánaða og 12 ára aldur hjá bæði drengjum og stúlkum.
Þunguðum konum sem ekki mælast með mótefni gegn rauðum hundum er ráðlagt að fá bólusetningu eftir fæðingu barnsins þannig að nær allar konur á barnseignaraldri hér á landi eru ónæmar gegn rauðum hundum. Talið er að 90% fóstra geti skaðast sýkist móðurinn á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Stúlkur sem bólusettar eru gegn rauðum hundum ættu að forðast að verða þungaðar á næstu þrem mánuðum á eftir.
Öll lönd í Evrópu nota þrígilt bóluefni þ.e. bóluefni í einni sprautu gegn rauðum hundum, mislingum og hettusótt (MMR). Í dag er eitt bóluefni skráð á Íslandi (Priorix).

Tölfræðilegar upplýsingar um Rauða hunda 

 

Tilkynningarskylda – skráningarskylda

Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af rauðum hundum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Sjá einnig upplýsingar um rauða hunda á heimasíðu Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC):

http://ecdc.europa.eu/EN/HEALTHTOPICS/RUBELLA/Pages/index.aspx 

Greinin birtist með góðfúslegu leyfi Landlæknis 

Síðast uppfært 16.05.2019

Höfundur greinar