Hnútarós er gamalt heiti á erythema nodosum. Niels Dungal, prófessor í meinafræði, lýsti einkennum og ferli sjúkdómsins mjög skilmerkilega í bókinni Heilsurækt og mannamein, útg. 1943. Þar segir meðal annars: Hnútarós er út af fyrir sig ekki alvarlegur sjúkdómur, en hún er oftast aðvörun um að berklasmitun hafi nýlega átt sér stað; þó getur hnútarós komið löngu eftir smitun. Berklar eru nú síður í sviðsljósinu sem orsakaþáttur og nýjar læknisfræðiorðabækur tilgreina fremur ofnæmisviðbrögð gegn ýmsum öðrum sýkingum eða gegn lyfjum.
Erythema nodosum
Undirritaður minntist heitisins rósahnútar, sem honum gekk þó illa að finna í sínum venjulegu heimildaritum. Hin nýja íslenska orðabók Eddu birtir þó fleirtöluheitið með skýringunni: hnútrós, sjúkdómur sem lýsir sér í rauðum þrymlum á útlimum og oft gigtarverkjum, einkum hjá ungum konum (erythema nodosum). Bókin Íslensk læknisfræðiheiti frá 1954 eftir Guðmund Hannesson tilgreinir einungis íslenska heitið þrimlaroði. Íðorðasafn lækna gefur heitin þrimlaroði og þrimlasótt en Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma (ICD 10) tilgreinir einungis þrimlaroðaþot. Undirrituðum er ekki ljóst hvert af þessum íslensku heitum er mest notað. Gaman væri að fá um það upplýsingar frá lesendum.
Erythema er þýtt sem roði í húð, húðroði, hörundsroði eða rauð húðútbrot. Latneska lýsingarorðið nodosus gefur til kynna að fyrirbæri sé hnútótt eða þrimlótt. Þrimill (eða þrymill) er svo hnútur eða þykkildi í eða undir húð. Orðið þot táknar útbrot, útþot, litarbreytingar sem birtast skyndilega í húð. Eftir á að hyggja er sjálfsagt óþarfi að lengja sjúkdómsheitið með þessari viðbót. Þrimlaroði er án efa nógu lýsandi.
Birtist fyrst í Læknablaðinu 9.tlb. 2003
Höfundur greinar
Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir
Allar færslur höfundar