RS vírus

RS-veira er kvefveira sem leggst bæði á efri og neðri öndunarvegi. Sýkingin veldur kvefi og oft bólgu og þrengingum í smáum berkjum lungnanna með öndunarerfiðleikum og hvæsandi öndun sérstaklega hjá mjög ungum börnum. Þetta er algengur sjúkdómur sem leggst á alla aldurshópa en getur lagst þungt á fyrirbura og ung börn innan sex mánaða.

Efnisyfirlit

Faraldsfræði

Veiran er svo algeng að flest börn innan tveggja ára aldurs hafa sýkst af henni. Faraldrar af völdum RS-veirunnar eru árvissir, þeir koma að vetrarlagi og standa venjulega í 2–3 mánuði. Árlega er komið með um 20% barna undir eins árs til læknis vegna bráðrar RS-veirusýkingar. Af þeim má reikna með að 2–3% gætu þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda.

Bæði fullorðnir og börn geta fengið sýkinguna aftur í nýjum faröldrum þar sem veiran veldur ekki langtíma ónæmi.

Smitleiðir og meðgöngutími

RS-veiran smitast einkum með beinni snertingu milli einstaklinga en getur einnig smitast með úðasmiti við hósta eða hnerra. Veiran getur lifað í nokkrar klukkustundir á leikföngum eða á borðplötu og getur smitast þannig og borist í líkamann í gegnum nef, munn og augu.

Sýktur einstaklingur er mest smitandi fyrstu dagana eftir að hann veikist en getur haldið áfram að vera smitandi í nokkrar vikur á eftir. Einkenni sjúkdómsins koma fram fjórum til sex dögum eftir að smit hefur orðið.

Einkenni sjúkdómsins

Sýkingar af völdum RS-veirunnar geta orðið mjög alvarlegar, sérstaklega hjá fyrirburum, ungabörnum og börnum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma. Einkenni sjúkdómsins geta verið öndunarerfiðleikar vegna lungna- eða berkjubólgu, hár hiti, mikill hósti, hvæsandi öndun, nefstífla, hröð erfið öndun, blámi á húð vegna skorts á nægu súrefni og oft fylgir eyrnabólga. Sjúklingar sem veikjast alvarlega af völdum RS-veirunnar geta þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

Sýkingin nær yfirleitt hámarki á 3–5 dögum og að mestu gengin yfir á einni viku. Flest börn jafna sig að fullu en sum þeirra fá astmaeinkenni fram eftir aldri samfara kvefsýkingum.

Hjá fullorðnum og eldri börnum eru einkenni oftast mild og líkjast vægri kvefpest þ.e. með nefrennsli, þurrum hósta, hitavellu, særindum í hálsi og vægum höfuðverk.

Veiran getur einnig valdið alvarlegum einkennum hjá eldra fólki, og einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóm eða hjá þeim sem eru með bælt ónæmiskerfi.

Greining

Greining byggir fyrst og fremst á sjúkdómseinkennum, sjúkrasögu og læknisskoðun en einnig er hægt að greina veiruna í slími frá nefkoki.

Meðferð

Meðferðin byggir einkum á stuðningsmeðferð, vegna þeirra einkenna sem barnið er með, s.s. vökva- og súrefnisgjöf. Astmalyf geta minnkað öndunarerfiðleika hjá ungum börnum.

Væg einkenni sjúkdómsins krefjast engrar sérstakrar meðhöndlunar. Flest börn jafna sig að fullu.

Forvarnir

Eftir snertingu við smitaðan einstakling er mikilvægt að gæta fyllsta hreinlætis og þvo hendur vel til að forðast smit. Til eru mótefni gegn RS-veirunni sem hægt er að gefa á sjúkrahúsum mjög ungum börnum til að koma í veg fyrir sýkingu.

Sjá nánar:
Laeknabladid 
Mayoclinic.org 

Greinin er fengin  af vef Landlæknis og birtist með góðfúslegu leyfi þeirra

uppfært 02.05.2017

 

Höfundur greinar