Slitgigt er algengasti liðbólgusjúkdómurinn, en milljónir manna um allan heim hafa sjúkdóminn. Slitgigt verður þegar liðbrjóskið í liðamótum á endum beina eyðist á löngum tíma. Sjúkdómurinn getur lagst á nánast hvaða lið líkamans sem er, en algengast er að sjúkdómurinn leggist á liði í höndum, hnjám, mjöðmum og hrygg. Það eru ekki til lyf sem lækna slitgigt en hins vegar er oft hægt að halda einkennum sjúkdómsins niðri. Heilbrigður lífsstíll með góðri hreyfingu og mataræði getur hægt á þróun slitgigtar og minnkað liðverki.
Efnisyfirlit
Einkenni
Einkenni slitgigtar koma oftast fram hægt og versna með tímanum. Einkennin eru:
- Verkir. Oft koma fram verkir í slitnum liðum við eða eftir hreyfingu.
- Eymsli sem koma fram þegar þreifað er á liðnum.
- Stífleiki í liðum, sem er mest áberandi á morgnanna eða eftir hreyfingarleysi. Þetta ástand skánar oft þegar líður á daginn þegar búið er að hreyfa liðinn aðeins.
- Minnkaður liðleiki. Stundum minnkar hreyfigetan í liðnum.
- Smellir/brak sem heyrist frá liðnum þegar hann er hreyfður.
- Beinnabbar/sporar. Þetta eru útvextir frá beini sem koma fram umhverfis slitna liði.
Orsakir
Slitgigt verður til þegar liðbrjósk í liðamótum eyðist með tímanum. Brjósk er hart en sleipt efni sem gerir okkur kleyft að hreyfa liði líkamans með sem minnstu viðnámi. Heilbrigt brjósk er alveg slétt en þegar það fer að eyðast verður yfirborð þess hrjúfara. Á lokastigi sjúkdómsins eyðist brjóskið algjörlega og aðeins beinið undir situr eftir. Bein er mun hrjúfara en brjósk og hreyfingar um liðinn verða stífar og sársaukafullar.
Áhættuþættir
Þeir þættir sem aukið geta líkur á að þróa með sér slitgigt eru:
- Hár aldur. Áhættan á slitgigt eykst með hækkandi aldri.
- Kvenkyn. Konur fá oftar slitgigt en karlar. Ástæðurnar fyrir þessu eru ekki þekktar.
- Offita getur leitt til slitgigtar með mismunandi hætti. Því fleiri sem aukakílóin eru, þeim mun meiri áhætta. Aukin þyngd veldur meira álagi á þá liði sem bera uppi líkamann sem þannig getur leitt til slitgigtar. Fituvefur framleiðir auk þess prótein sem geta valdið bólgum í og í kringum liði líkamans.
- Áverkar á liðum valda auknum líkum á því að slitgigt þróist í viðkomandi lið seinna meir. Þetta getur einnig átt við áverka sem áttu sér stað fyrir mörgum árum og fólk er löngu hætt að finna fyrir.
- Ákveðnar atvinnugreinar. Fólk í störfum þar sem það verður fyrir endurteknu álagi á ákveðna liði er í meiri áhættu á að þróa með sér slitgigt í þeim liðum.
- Erfðir. Slitgigt getur legið í ættum og þeir einstaklingar sem hafa mikla fjölskyldusögu um sjúkdóminn eru líklegri til að fá hann en aðrir.
- Bein- og brjóskgallar. Fólk með ýmsa meðfædda galla í liðum og beinum getur verið í meiri hættu á að fá slitgigt.
Greining
Þegar grunur er um slitgigt framkvæmir læknir skoðun. Viðkomandi liður er skoðaður með tilliti til verkja við þreifingu, bólgu, roða og hreyfigetu. Einnig getur verið ástæða til að gera eftirfarandi rannsóknir:
- Röntgenmynd. Brjósk sést ekki á röntgenmyndum en bein sjást hins vegar vel. Tap á liðbrjóski kemur því fram á röntgenmynd sem minnkun á bilinu milli beina í liðamótum. Í langt genginni slitgigt sjást beinin liggja þétt uppvið hvort annað, en þá er allt liðbrjósk á milli uppurið. Einnig geta sést beinnabbar í kringum slitna liði á röntgenmyndum. Stundum er hægt að sjá merki um byrjandi slitgigt hjá einkennalausu fólki.
- Segulómskoðun (MRI). Brjósk og aðrir mýkri vefir sjást vel á MRI. Það er sjaldgæft að það þurfi að framkvæma segulómskoðun til að greina slitgigt, en hún getur komið sér vel í sumum tilfellum.
- Blóðprufur. Það er ekki þörf á blóðprufum til að greina slitgigt, en þær geta hins vegar hjálpað til við að útiloka aðra sjúkdóma sem geta valdið liðverkjum.
- Rannsóknir á liðvökva. Ef það er aukinn vökvi í liðnum er stundum tekið sýni með nál og sent í rannsóknir. Þetta er hægt að gera til að útiloka sýkingu eða þvagsýrugigt.
Meðferð
Slitgigt er sjúkdómur sem versnar eftir því sem tíminn líður. Verkur og stífleiki í liðum getur á endanum orðið það mikill að það geri daglegar athafnir erfiðar. Það er ekki til nein lækning við slitgigt, en hægt er að halda einkennunum niðri með lífstílsbreytingum, sjúkraþjálfun og lyfjum. Einnig er hægt að fara í gerviliðsaðgerð ef sjúkdómurinn er kominn á lokastig og ásættanlegur árangur næst ekki á annan hátt. Hér eru nokkur atriði sem koma við sögu í meðferð slitgigtar:
Lyf
- Paracetamole (Paratabs, Panodil). Rannsóknir hafa sýnt fram á að parasetamól geti verið öflug meðferð við verkjum hjá fólki með væga-meðalslæma slitgigtarverki. Ráðlagður skammtur er oftast 1000 mg 2-4 sinnum á dag. Það getur verið skaðlegt að taka meira en ráðlagðan dagskammt.
- Bólgueyðandi verkjalyf eins og íbúfen, naproxen og diclofenac (voltaren, diclomex) geta linað verki mikið. Það er ekki mælt með því að vera á þessum lyfjum í langan tíma í einu þar sem þau geta haft aukaverkanir á maga, nýru, hjarta, o.fl. séu þau tekin daglega í langan tíma. Hægt er að fá bólgueyðandi verkjalyf í formi hlaups sem borið er á húðina yfir liðnum. Þetta hefur mun minni aukaverkanir og virkar oft vel.
- Duloxetine (Cymbalta). Venjulega er þetta lyf notað við þunglyndi en það er einnig notað við langvinnum verkjum eins og til dæmis slitgigtarverkjum.
Þjálfun
- Sjúkraþjálfun. Að fylgja æfingaáætlun frá sjúkraþjálfara getur hjálpað mikið. Við þetta styrkjast vöðvarnir umhverfis viðkomandi liði, hreyfigeta eykst og verkir minnka. Regluleg hreyfing eins og sund eða léttir göngutúrar geta einnig hjálpað.
- Spelkur geta stundum hjálpað við slitgigt, sérstaklega ef um er að ræða slitgigt öðrum megin í hnélið. Svokallaðar unloader spelkur frá Össuri hafa gefið góða raun.
- Iðjuþjálfun getur hjálpað fólki að finna leiðir við daglegar athafnir og vinnu sem minnka álagið á viðkomandi liði. Sem dæmi er hægt að fá tannbursta og hnífapör með þykku haldi sem hjálpar fólki með slitgigt í fingurliðum. Bekkur eða stóll í sturtu getur minnkað verki við að standa hjá þeim sem hafa slitgigt í hnjám.
- Jóga. Léttar æfingar, teygjur og djúpöndun getur minnkað slitgigtarverki. Margir nota þessar aðferðir til að slaka á og minnka stress og rannsóknir benda til þess að jóga geti einnig minnkað verki og aukið hreyfigetu liða í slitgigt.
Skurðaðgerðir og önnur inngrip
Þegar ásættanlegur árangur næst ekki með ofangreindum aðgerðum má íhuga þessi atriði:
- Sterasprautur. Sprautur með barksterum og deyfingarlyfjum eru oft gefnar t.d. í slitna hnéliði. Við þetta minnka verkirnir og bólga minnkar. Verkjastilling af sprautum sem þessum virkar mismunandi lengi milli einstaklinga, allt frá nokkrum vikum upp í ár eða meira. Ekki er mælt með því að fá fleiri en 3-4 sprautur á ári þar sem liðskemmdir geta aukist við tíðari gjafir.
- Fleygskurður í bein. Ef hnéslitgigt er til staðar annaðhvort hliðlægt eða miðlægt í hné er möguleiki á því að gera aðgerð þar sem líkamsþyngdin er færð frá slitna liðfletinum yfir á heilbrigðari liðflöt. Skurðlæknirinn sker þá fleyg úr beini ýmist fyrir ofan eða neðan hné og hliðrar þannig álaginu.
- Gerviliðsaðgerð. Á lokastigi sjúkdóms er oft ekkert hægt að gera nema skipta um lið og setja gervilið í staðinn. Skurðlæknir fjarlægir þá skemmda liðflötinn og setur í staðinn gervilið úr plasti og málmi. Algengustu gerviliðsaðgerðirnar eru á hnjám, mjöðmum og öxlum.
Höfundur greinar
Gunnar Björn Ólafsson, læknir
Allar færslur höfundar