Sogæðakerfið

Sogæðakerfið er hluti af ónæmiskerfi líkamans og má finna sogæðar um nær allann líkamann, nema í æðakerfi, miðtaugakerfi og rauðum beinmerg. Sogæðakerfið samanstendur af eitlum, rásum eða æðum og kirtlum. Markmið þess er að fjarlægja umframvökva, eggjahvítuefni og bakteríur sem blóðrásin ræður ekki við. Samhliða sogæðum eru eitlar, litlir baunalaga kirtlar, sem vinna við að sía/hreinsa vökvann af framandi efnum eins og t.d.  krabbameinsfrumur og sýkingar. Eitla er að finna um allan líkamann, hálsinum, holhöndum, brjóstkassa, maga og nára. Eins eru hálskirtlar, nefkirtlar, milta og hóstakirtill líka hluti af sogæðakerfinu. Ólíkt blóðrásarkerfinu þar sem hjartað virkar sem dæla, hreyfist sogæðakerfið aðeins aðra leiðina – upp og frá þyngdaraflinu. Hlutverk sogæðakerfisins er aðallega þríþætt. Í fyrsta lagi tekur það umframvökva sem bláæðakerfið skilur eftir, síar það og skilar ásamt þeim próteinum sem í honum eru, aftur í blóðrásina. Sogðæðakerfið gegnir því mikilvægu hlutverki í vökvajafnvægi líkamans. Í öðru lagi taka sogæðar þarmanna við fituefnum og fituleysanlegum vítamínum og koma þeim í blóðrásina. Að lokum tekur sogæðakerfið þátt í varnar- og ónæmiskerfi líkamans gegn framandi frumum og örverum.

Sogæðabólga/bjúgur

Sogæðabjúgur/bólga er vökvasöfnun vegna skertrar starfsgetu sogæðakerfisins eða vegna aukinnar framleiðslu sogæðavökva. Þar sem sogæðakerfið er að reyna að berjast gegn þyngdaraflinu getur það stíflast og ef sogæðarnar skemmast eða eitlarnir eru fjarlægðir, truflast frárennsli millifrumuvökvans og þá myndast það sem er kallað sogæðabólga, sogæðabjúgur eða vessabjúgur.

Hægt er að skipta sogæðabólgu í tvo undirflokka, primer og secunder. Primer er af óþekktum uppruna, meðfæddir gallar til staðar eða vantar sogæðar frá byrjun, sem leiðir til skertrar flutningsgetu sogæðakerfisins. Secunder er afleiðing vegna annara sjúkdóma og er krabbamein algengasta orsökin í  hinum vestræna heimi. Aðrar orsakir sogæðabólgu eru skurðaðgerðir, bruni og geislameðferð við brjóstakrabbameini sem geta valdið sogæðabólgu í handlegg. Af sjaldgæfari orsökum má nefna berkla, snertiofnæmi og iktsýki. Einnig sést sogæðabjúgur oft eftir áverka s.s. wiphlash (hálshnykk), eftir ýmsar aðgerðir í kringum skurðsár, beinbrot, hjá gigtarsjúklingum, eftir blóðtappa, sýkingar og ofáreynslu svo eitthvað sé nefnt.

Sogæðabólga byrjar yfirleitt með aukinni spennu í húðinni, þungri tilfinningu í líkamshlutanum og síðan verður ummálsaukning. Þessu fylgja ekki alltaf verkir en ummálsaukningin getur hindrað daglegar athafnir og ef ástandið stendur lengi eykst hætta á verkjum og öðrum óþægindum og vefurinn hefur þá tekið varanlegum breytingum með bandvefsmyndun. Lélegt mataræði og of mikil útsetning fyrir eiturefnum í umhverfinu getur ofhlaðið sogæðakerfið. Að auki getur skortur á svefni, ofþornun, streita, tilfinningaleg áföll, sýkingar og hreyfingarleysi hindrað og stundum jafnvel stöðvað sogæðastreymið.

Meðferð

Meðferð við sogæðabólgum/bjúg er margþætt en ekki hefur fundist nein bein lækning. Gerðar hafa verið tilraunir með skurðaðgerðir þar sem sogæðar eru tengdar við bláæðar og þannig opnað fyrir rennslið eða beita fitusogi á útliminn en þetta er allt á tilraunastigi og í þróun. Passa þarf húðumhirðu því aukin hætta er á húðsýkingum á bjúgsvæði. Eins er gott að gera æfingar sem örva flæði sogæðavökvans til baka út í blóðrásina. Sogæðanudd er mjög létt nudd sem eykur vessaflæði og eflir virkni eitla og heilbrigðu sogæðanna.  Kinesio-taping er aðferð sem örvar flæði sogæðavökva.

Þrýstimeðferð, hvort sem er þrýstiermi eða sokkur er mikilvæg og því meiri þrýstingur því betra, að því tilskyldu að ekki þrengi að frárennslissvæðum. Í besta falli ættu einstaklingar sem að þjást að sogæðabjúg að hafa aðgengi að þrýstiermum/sokkum í mismunandi styrkleika. Hæfileg hreyfing er af hinu góða og styrkir sogæðakerfið. Mælt er með sundi, göngu og stafagöngu. Ofreynsla eykur álagið á sogæðakerfið og því er best að byrja rólega og auka álagið jafn og þétt. Einstaklingum sem þjást af sjúkdómnum finnst lítið um úrræði og erfitt oft fyrir virka einstaklinga að hægja á sér til að fylgja breyttum lífstíl. Þess má hinsvegar geta að erlendis eru sérstakar meðferðarstofnanir fyrir sogæðabólgu sem og félög eða stuðningshópar fyrir sjúklinga með sjúkdóminn.

Höfundur greinar