Þvagfærasýkingar hjá börnum

Efnisyfirlit

Hvað er þvagfærasýking?

Þegar bakteríur (sýklar) valda bólgu í þvagblöðru (blöðrubólga) eða nýrum (nýrnasýking) er um þvagfærasýkingu að ræða. Um það bil 1-2% drengja og 3-5% stúlkna fá þvagfærasýkingu á fyrstu 10 árum ævinnar. Bakteríur geta einnig tekið sér bólfestu í þvagfærum án þess að valda sýkingu. Þetta er saklaust ástand sem er algengt í stúlkum á grunnskólaaldri.

Hvaðan koma bakteríurnar?

Bakteríur sem valda þvagfærasýkingum eru flestar til staðar í þörmum heilbrigðra einstaklinga. Nálægð þvagrásarops við endaþarm veldur því að bakteríurnar eiga oft greiða leið upp í blöðruna. Þetta er algengasta smitleiðin en ekki er nákvæmlega vitað af hverju sumir einstaklingar eru næmari en aðrir. Þvagfærasýking er ekki smitandi.

Hver eru einkennin?

Eldri börn hafa iðulega kviðverki, sviða við þvaglát, pissa oft og gjarnan lítið í einu, þurfa skyndilega að pissa og óhöpp geta orðið bæði að degi og/eða nóttu hjá börnum sem eru hætt að missa þvag. Hiti, óværð, uppköst, niðurgangur og vanþrif (þyngjast illa) eru algeng einkenni hjá börnum á fyrsta ári.

Hvernig er þvagfærasýking greind?

Þvagfærasýkingu er aðeins hægt að greina með ræktun þvags. Smásjárskoðun, þar sem leitað er að bakteríum og ummerkjum bólgu, eykur öryggi greiningarinnar.

Hvernig er þvagprufa til ræktunar tekin?

Eldri börn pissa beint í prufglas (miðbunuþvag), eftir að svæðið kringum þvagrásina hefur verið þrifið með hreinum klút og kranavatni. Hjá yngri börnum eru þvagprufur til ræktunar aðallega teknar með þrennum hætti.

1. Pokaþvag: Svæðið kringum þvagrásina er þrifið með hreinum klút og volgu kranavatni. Því næst er sérstakur sjálflímandi þvagpoki (fæst í öllum lyfjaverslunum) festur á húðina, kringum þvagrásaropið. Best er að gefa barninu vel að drekka skömmu áður en pokinn er settur á til þess að auka þvagmyndun. Vegna hættu á mengun þvagsýnis, með bakteríum af yfirborði líkamans, er nauðsynlegt að skipta um poka á 30-60 mínútna fresti þar til þvag næst. Þetta er hægt að gera heima.

2. Þvagleggsþvag: Til þess að forðast mengun þvagsýnis með húðbakteríum er örgrönn slanga úr mjúku plastefni þrædd gegnum þvagrásina upp í blöðruna og þvagið sett beint í dauðhreinsað ílát. Þetta er eingöngu gert af læknum og hjúkrunarfræðingum.

3. Ástunguþvag: Þvagblaðran nær upp í neðri hluta kviðarhols í börnum á fyrsta ári og er tæknilega auðvelt að ná þvagi með grannri nál, sem stungið er rétt fyrir ofan lífbeinið. Með þessu móti er mengun sýnis nær útilokuð. Þetta er einungis gert af læknum sem hafa reynslu í barnalækningum.

Hvað er gert ef barnið mitt reynist hafa þvagsýkingu?

Allar þvagfærasýkingar eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum sem annað hvort eru tekin inn eða gefin í æð.

Eftir að þvagfærasýking hefur verið greind og meðhöndlun hafin þurfa börn oft að fara í sónarskoðun af nýrum og blöðrumyndatöku.

Hvaða börn þurfa að fara í myndatöku?

Fyrsta sýking:
Öll börn með hærri hita en 38 stig.
Allir drengir.
Allar stúlkur undir 5 ára aldri.

Endurteknar sýkingar:
Öll börn sem ekki voru rannsökuð eftir fyrstu sýkingu og sýkjast aftur innan tveggja ára. Ofangreindar rannsóknir eru gerðar til að athuga hvort barnið hefur meðfædda galla á þvagfærum sem vitað er að auka hættu á þvagfærasýkingum.

Ef barnið þitt reynist hafa þvagfærasýkingu verður nákvæmlega útskýrt fyrir þér hvernig best er að haga langtíma eftirliti og meðferð.

Bæklingur gefinn út af Landspítala Háskólasjúkrahús/Barnaspítala Hringsins

Höfundur greinar