Tíðahvörf

Efnisyfirlit

Tíðahvörf (menopause)

Tíðahvörf verða hjá konum þegar þær hætta að hafa blæðingar. Skilgreining tíðahvarfa er þegar kona hefur ekki haft blæðingar í 12 mánuði. Algengast er að þau eigi sér stað á milli 49-52 ára aldurs en það getur verið mjög breytilegt milli einstaklinga. Tíðahvörf eru náttúrulegt og eðlilegt ferli sem allar konur ganga í gegnum en einkennin geta verið erfið viðureignar og valdið miklum óþægindum og vanlíðan. Það eru þó ýmsir meðferðarmöguleikar í boði.

 

Einkenni

Á árunum og mánuðunum fyrir tíðahvörf (perimenopause), á svokölluðu breytingaskeiði, geta konur fundið fyrir eftirfarandi einkennum:

  • Óreglulegar blæðingar
  • Þurrkur í leggöngum
  • Hitakóf
  • Hrollur
  • Nætursviti
  • Svefnvandamál
  • Skapsveiflur
  • Þyngdaraukning og hægari efnaskipti
  • Þynning hárs
  • Húðþurrkur
  • Minnkuð fylling brjósta

Einkennin eru mjög mismunandi milli einstaklinga, en flestar konur finna fyrir óreglulegum blæðingum. Að missa úr tíðablæðingar er algengt og viðbúið. Stundum dettur einn mánuður út og blæðingarnar koma svo aftur, stundum verða engar blæðingar í nokkra mánuði í röð en svo koma þær aftur. Tíðahringir geta einnig styst þannig að styttra líður á milli blæðinga en áður. Þrátt fyrir þessar óreglulegu blæðingar er alltaf möguleiki á því að konan verði ófrísk.

 

Orsakir

  • Náttúruleg minnkuð framleiðsla á kynhormónum. Eins og fyrr segir eru tíðahvörf eðlilegt og náttúrulegt ferli. Þegar kona nálgast fimmtugsaldurinn fara eggjastokkarnir að framleiða minna og minna estrogen og progesteron, hormónin sem stýra tíðahringnum, og frjósemi minnkar. Á fimmtugsaldrinum geta tíðablæðingar tekið styttri eða lengri tíma, minnkað eða aukist, orðið oftar eða sjaldnar. Að lokum hætta svo blæðingarnar alveg, oftast á aldrinum 49-52 ára.
  • Brottnám eggjastokka. Séu eggjastokkar fjarlægðir veldur það tíðahvörfum tafarlaust. Tíðablæðingar hætta og einkenni tíðahvarfa eins og hitakóf gera vart við sig. Einkenni geta verið sérstaklega mikil þar sem hormónaframleiðslan hættir mjög skyndilega. Brottnám legs hefur ekki áhrif á tíðahvörf.
  • Lyfja- og geislameðferð. Krabbameinsmeðferð getur framkallað tíðahvörf. Þetta ástand er ekki alltaf varanlegt og blæðingar geta hafist að nýju.
  • Frumkomin eggjastokksbilun. þ.b. 1% kvenna fá tíðahvörf fyrir 40 ára aldur. Tíðahvörf geta þá orsakast af frumkominni eggjastokksbilun (primary ovarian insufficiency), en það er þegar eggjastokkarnir framleiða ekki eðlilegt magn hormóna. Ástæðan getur verið erfðatengd eða vegna sjálfsofnæmissjúkdóma. Oft finnst engin orsök. Fyrir konur með frumkomna eggjastokksbilun er mælt með hormónauppbótarmeðferð, a.m.k. þar til náttúrulegum aldri fyrir tíðahvörf er náð.

 

Fylgikvillar

Eftir tíðahvörf eykst hættan á ýmsum kvillum.

  • Hjarta- og æðasjúkdómar. Þegar estrogen styrkur í blóði minnkar eykst hættan á þessum sjúkdómum.
  • Beinþynning. Beinin verða þynnri og stökkari og hætta á beinbrotum eykst.
  • Þvagleki. Vefir og slímhúðir í þvagrás og leggöngum missa teygjanleika sinn og við það verða ýmsar breytingar. Þvaglátaþörf getur komið mjög brátt og stundum ná konur ekki á klósett áður en þær missa þvag. Einnig getur orðið áreynsluþvagleki, en það er þegar fólk missir þvag við áreynslu eins og lyftingar, hósta eða hlátur. Þvagfærasýkingar geta orðið algengari. Styrking grindarbotnsvöðva og hormónameðferð um leggöng getur hjálpað til með þessi vandamál.
  • Áhrif á kynlíf. Þurrkur og minnkaður teygjanleiki vefja í leggöngum getur valdið óþægindum við samfarir. Einnig getur minnkað skyn kynfæranna minnkað löngun í kynlíf. Sleipiefni eða hormónameðferð getur hjálpað.
  • Þyngdaraukning. Margar konur þyngjast við tíðahvörf vegna þess að það hægist á efnaskiptum. Stundum þarf að draga úr fæðuinntöku og auka hreyfingu til að koma í veg fyrir þetta.

 

Greining

Einkenni tíðahvarfa er yfirleitt nóg til að greina það að konur séu komnar í tíðahvörf. Ef einhver vafi leikur á um hvað orsakar einkennin þá ætti að leita til læknis. Yfirleitt þarf ekki að gera neinar rannsóknir, en undir ákveðnum kringumstæðum getur verið ástæða til hormónamælinga í blóði.

  • Follice-stimulating hormone (FSH) og estrogen (estradiol) eru stundum mæld. Í tíðahvörfum eykst FSH í blóði og styrkur estradiols lækkar.
  • Thyroid-stimulating hormone (TSH), stýrihormón skjaldkirtilsins, er stundum mælt vegna þess að vanvirkur skjaldkirtill getur valdið einkennum sem svipa til einkenna tíðahvarfa.

 

Meðferð

Það er ekki þörf á neinni meðferð til að stöðva tíðahvörf. Hins vegar er stundum ástæða til að setja inn meðferð til að minnka einkenni.

  • Hormónameðferð. Meðferð með estrogeni er gagnlegasta meðferðin við einkennum tíðahvarfa. Oft þarf meðferðin að innihalda bæði estrogen og progestin. Estrogen viðheldur einnig beinmassa og er stundum notað til að sporna við beinþynningu. Langtíma notkun hormónanna getur þó haft slæm áhrif á hjarta- og æðakerfi og getur einnig aukið hættu á brjóstakrabbameini.
  • Estrogen um leggöng. Estrogen meðferð um leggöng getur minnkað þurrk þar og aukið teygjanleika vefjanna. Þetta getur minnkað þvagleka, óþægindi við samfarir og líkur á þvagfærasýkingum. Hægt er að fá meðferð með kremi, töflum eða hring sem sett eru í leggöngin. Með þessari meðferð fer estrogenið aðeins í mjög litlu magni út í blóðið og virkar því nánast eingöngu í leggöngum.
  • Þunglyndislyf. Ákveðin þunglyndislyf geta minnkað hitakóf og önnur einkenni tíðahvarfa. Þetta getur verið góður kostur fyrir konur sem ekki geta tekið hormóna eða eru í þörf fyrir þunglyndislyf vegna geðrænna vandamála.
  • Gabapentin, clonidine, o.fl. lyf geta minnkað einkenni tíðahvarfa.
  • Beinþynningarlyf. Eftir tíðahvörf getur beinmassi minnkað. Ef þetta er stórt vandamál getur verið þörf á lyfjum til að koma í veg fyrir beinþynningu, t.d. alendronate eða risedronate. D-vítamín hjálpar einnig.

Höfundur greinar