Á erfitt með að þyngjast.

Fyrirspurn:

Ég hef alltaf verið mjög létt og grönn en eftir að ég meiddist í baki þá hef ég ekki getað æft jafn mikið og áður þannig að vöðvamassinn hefur minnkað og þar af leiðandi hef ég léttst og ég er farin að hafa áhyggjur. Ég borða eðilega, morgunmat, hádegismat og kvöldmat, stundum eitthvað smá fyrir og eftir kvöldmat líka. Ég hef reynt að minnka brauðát því að ég virðist vera með einhverskonar ofnæmi eða óþol fyrir geri en ég vildi vita hvort það væri einhver fæðubótaefni eða hvað ég ætti helst að borða til þess að ná að þyngjast?

Aldur:

21

Kyn:

Kvenmaður

Svar:

Sæl,

Sumir eiga við það vandamál að stríða að geta ekki haldið þyngd og þyngst, öfugt við svo marga aðra. Ég tel að fæðubótarefni gætu komið til greina og þá til dæmis drykkir svokallaðir “meal replacement” drykkir eða hreinlega Build Up frá Nestlé sem þú blandar út í léttmjólk. Þú getur jafnvel sett frosin ber saman við eða aðra ávexti. Einnig er gott að setja ís saman við en það eykur orkuna töluvert.

Hins vegar þá legg ég til að þú reynir að fjölga máltíðum þannig að þú borðir áfram morgun-, hádegis- og kvöldmat en bætir við millibitum kl. 10, kl. 14 og 16 sem dæmi. Slíkir millibitar auka orkuinntökuna og næringarefnin sem líkaminn fær til að vinna úr og hjálpar þér smám saman að byggja líkamann upp aftur og ná kjörþyngd. Dæmi um þægilega millibita væru orkuríkari ávextir eins og banani og vínber, mjólkurvörur til dæmis skyr með mjólk, brauð sem þú þolir, hafragrautur með rúsínum og mjólk, hnetur og þurrkaðir ávextir og Minna mál hrökkbrauð svo nokkuð sé nefnt. Einnig er sjálfsagt að hafa minna sætt kex til dæmis hafrakex og setja á það kotasælu og papriku sem gefur orku, prótein og kalk.

Gott er að taka lýsi daglega, ½ msk er nóg sé það tekið daglega. Setja má inn aukna orku og næringu með því að setja olíu og ýmiskonar fræ og hnetur út á salöt, einnig má strá múslí og fræum yfir morgunkornið á morgnanan og drekka glas af appelsínusafa með en það eykur bæði orkuna og upptöku á járni.

Varðandi brauðið þá finna sumir fyrir þessu með gerið. Til að taka af allan vafa þá væri sniðugt hjá þér að prófa að nota súrdeigs brauð og/eða önnur gerlaus brauð og sumar tegundir af flatkökum innihalda ekkert ger þannig að þú gætir prófað það líka. Það að taka brauðið alveg út gerir mataræðið heldur einhæft þannig að ég ráðlegg þér að prófa þig aðeins áfram og sjá hvaða brauð þú þolir.

Ég vona að þetta hjálpi þér við að ná upp þyngdinni og styrkjast.

Fríða R. Þórðardóttir , næringarfræðingur