Að byrja á túr

Þær konur sem byrja seint á túr (ca.14 ára) þýðir það ekki að blæðingar hætti seinna hjá þeim (ca.50-54 ára), en hinum sem byrja snemma á túr (ca.10-12 ára) og hætta þær ekki fyrr (ca.36-38 ára)? Ræðst þetta ekki af erfðum (frá móður til dóttur)?

 

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina,

 

Tengsl aldurs við fyrstu tíðar (menarche) og aldurs við tíðahvörf (menopause) eru ekki enn að fullu ljós. Rannsóknir virðast flestar benda til þess að ekki séu marktæk tengsl á milli þessara atburða, en erfitt hefur reynst að fá óyggjandi niðurstöður meðal annars vegna mismunandi aðferða í rannsóknarvinnu.

 

Meðalaldur við tíðahvörf er 51 ár, en algengast er að tíðahvörf eigi sér stað á bilinu 49-52 ára. Mjög sjaldgæft er að konur hafi tíðahvörf við þennan aldur sem þú nefnir ca. 36-38 ára, en einungis um það bil 1% kvenna fær tíðahvörf fyrir 40 ára aldur. Breytingarskeið getur hins vegar hafist allt uppí 10 árum áður en blæðingar hætta. Breytingarskeið hefst að meðaltali við 45-55 ára aldur og fylgja því gjarnan einkenni svo sem svefntruflanir, hitakóf og hjartsláttaköst.

Það er rétt hjá þér að það virðast vera sterk erfðatengsl í þessum efnum. Aldur móður við fyrstu blæðingar og við tíðahvörf er talin vera ein besta vísbendingin fyrir því á hvaða aldri er líklegt að dóttir gangi í gegnum þessar breytingar.

Hægt er að lesa nánar um tíðahvörf og breytingaskeið kvenna hér  https://doktor.is/sjukdomur/tidahvorf

Einnig er hægt að lesa nánar um tíðahringinn hér https://doktor.is/grein/tidahringurinn

Gangi ykkur vel

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur