Ég er 21 og búin að vera að ljúga svo mikið í fjölskylduna undanfarið um skólann og námið. Ég segi alltaf að mér gangi bara geggjað vel þrátt fyrir að ég sé að falla í nánast öllu. Fer jafnvel ekki í próf en þykist hafa farið í það og hafa gengið bara sæmilega (eða jafnvel svakalega vel). Ég á mjög erfitt með að hætta þessum vítahring en fæ ótrúlega mikið samviskubit yfir að ljúga að öllum. En get samt einhvern vegin ekki hætt. Hvað get ég gert í þessu leiðinlega vandamáli?
Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,
Þakka þér fyrir traustið að leita til okkar með þetta vandamál, ég sé það að þetta er farið að vera þér til trafala. Það er erfitt vandamál að segja ósatt og getur verið erfitt að komast út úr því þegar lygavefur er byrjaður að spinnast. Það er þó alltaf hægt að koma sér út úr þeim vana að segja ósatt.
Fyrsta skrefið ert þú búin/n að stíga með því að gera þér grein fyrir vandanum og auk þess að finna fyrir löngun til breytingar þar á.
Mikilvægt er að muna það að jafnvel þótt þú missir út úr þér eitthvað sem er ekki fullur sannleikur er hægt að leiðrétta það eftir á, lygin er ekki skráð í stein og gætir þú þá til dæmis bryddað uppá umræðuefninu aftur og sagt hreint út eitthvað í þessa átt “manstu þegar þú spurðir um prófið sem ég fór í um daginn? Það var ekki alveg rétt sem ég sagði þér þá, mér gekk satt að segja ekki nægilega vel”. Svo getur þú vegið og metið hvort þig langi til þess að ræða það frekar við fólkið þitt eða láta þar við sitja. Ef þér þykir erfitt að segja satt frá þegar þú hefur ekki mætt í próf eða þér gengur ekki eins vel og þú hefðir óskað, gætir þú tamið þér það að greina fólki frá því að þú viljir ekki ræða þetta að svo stöddu. Með þeim hætti kemstu hjá því að segja ósatt, þrátt fyrir að vilja ekki deila sannleikanum með viðkomandi aðila. Þó myndi ég hvetja þig til þess að vera opin/n við fólkið í kringum þig því það er ótrúlegt hvað það getur verið gagnlegt að vera ljáð eyra og fá að tala um hlutina sem eru í gangi í lífi manns, sérstaklega ef illa gengur.
Ég myndi telja að það væri mikilvægt fyrir þig að garfast aðeins í því hjá sjálfri/sjálfum þér hvers vegna þú grípur í lygar þegar það kemur að þessu umræðuefni. Hver er undirliggjandi rót þessa vanda? Tengist þetta ef til vill námskvíða, skömm, námserfiðleikum, feimni, löngun til að gera betur eða einhverju allt öðru?
Það gæti verið mikill styrkur fólginn í því að ræða þetta vandamál við einhvern sem þú treystir og jafnvel að leita þér aðstoðar fagaðila, svo sem sálfræðings, sem gæti bæði hjálpað þér að skoða þetta mynstur, samviskubitið og einnig ráðlagt þér hvernig þú getur unni með þetta leiðinlega vandamál.
Gangi þér vel
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur