Af hverju er Orfiril gefið við lyndisröskun?

Spurning:

Sæll.

Af hverju er Orfiril (sem er flogaveikislyf) gefið við lyndisröskun?

Svar:

Sæll.

Ekki er ég vel að mér í sértækum greiningum geðtruflana. Í oflætis-geðdeyfðar sveiflum (maniu-depression) er talið að rugl sé á boðefnum í heila viðkomandi. Í geðdeyfð er talið að virkni noradrenalíns og serótónins (ásamt fleiri taugaboðefnum) sé ábótavant. Í oflæti er talið að katekólamín (sérstaklega noradrenalín) séu að hafa of mikil áhrif.

Noradrenalín og serótónin eru mjög háð hvort öðru og vinna saman og sjórna öðrum taugaboðefnum og hormónakerfum. Ein tilgátan gerir ráð fyrir að styrkur serótóníns í miðtaugakerfi sé lítill bæði í oflæti og geðdeyfð og að serótónín sé mikilvægt í stjórnun á virkni miðtaugakerfisins.

Sennilega eru lyndistruflanir ekki eingöngu vegna aukningar eða minnkunar í virkni ákveðinna taugaboðefna heldur getur ójafnvægi á milli taugaboðefna-kerfa orsakað sveiflukenndar truflanir. Óregla í noradrenalíni kann að vera mikilvægur þáttur í oflæti. Þetta eru flókin fræði sem ég ætla ekki að fara of djúpt í en að loknum þessum inngangi ætla ég að vinda mér beint í svarið.

Gamma-amínóbútytic sýra (GABA, sem er aðal „hemjandi” taugaboðefnið í miðtaugakerfinu) getur verið innviklað í að hemja bæði virkni dópamíns og noradrenalíns.

Ein tilgátan við lyndistruflun (e. Mood disorder) er að hún sé vegna skorts á GABA og að GABA virkni geti verið tengd við næmingu eða uppkveikjumódel lyndistruflana. Mörg lyf sem notuð eru við oflæti auka virkni GABA, þar á meðal valpróín sýra (Orfiril).
Vonandi ertu einhverju nær.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur