Áfengi við upphaf meðgöngu?

Spurning:
Hæ, hæ, ég var að komast að því að ég er ófrísk, komin tvo mánuði á leið. Þannig er nú mál með vexti að fyrsta einn og hálfan mánuðinn þá drakk ég mikið brennivín nánast hverja helgi og ég tók inn líka fitubrennslutöflur sem heita Betaline. Það stendur á umbúðunum að maður eigi að taka inn tvær töflur tvisar á dag en ég tók alltaf bara eina á dag. Einnig stendur á umbúðunum að maður megi ekki taka þessar töflur á meðgöngu þannig ég vildi spyrja ykkur hvort þetta væri nokkuð búið að skaða fóstrið á einhvern hátt. Það væri frábært ef þið mynduð geta svarað mér sem fyrst, því ég er ekki alveg búin að taka ákvörðun um hvort ég ætti að fara í fóstureyðingu, en það er samt ekki miklar líkur á því.
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Oftast vita konur ekki að þær eru ófrískar fyrr en þær eru komnar 4-8 vikur. Og hafa því kannski verið að drekka vín á þeim tíma. Við vitum að áfengi er ekki æskilegt á meðgöngu en hversu mikið skaða það getur valdið er erfitt að segja því það er ekki vitað hversu mikið magn þarf til að skaða fóstrið. Því miður þá þekki ég ekki þessar töflur sem þú varst að taka og get ekki sagt neitt varðandi þær. Ég myndi í þínum sporum ráðfæra mig við lækni og sjá hvað hann segir.

Gangi þér vel,
kv. Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.