Spurning:
Sæl!
Ég á litla þriggja mánaða yndislega stelpu sem er á brjósti og allt gengur vel í sambandi við það. Mig langaði bara að fá nákvæmar upplýsingar um áhrif áfengis og reykinga á brjóstamjólkina. Segjum t.d. að ég fengi mér 4 bjóra og 10 sígarettur. Hver væru áhrifin og hvað fer í mjólkina? Eru áhrifin á mjólkina langvarandi eða væri nóg að tæma brjóstin þegar heim væri komið? Mér finnst vanta alls kyns svona upplýsingar í allar bækur um ungbörn. Á gamlárskvöld drakk ég heila freyðivínsflösku og reykti 2 sígarettur. Ég varð ekki vör við neinar breytingar á henni. Er ég hræðileg móðir?
Kveðja, með von um svar.
Svar:
Sæl móðir.
Neysla áfengis við brjóstagjöf leiðir til þess að alkóhól fer yfir í brjóstamjólkina. Styrkur alkóhólsins í mjólkinni fer eftir því hversu sterkt áfengi er drukkið og hversu hratt, en er að jafnaði svipaður styrk alkóhólsins í blóði móðurinnar. Þannig að á meðan móðirin finnur á sér er áfengi í mjólkinni og hún ekki æskileg til gjafar. Alkóhólið hefur slævandi áhrif á barnið og rannsóknir sýna að börn mæðra sem drekka að staðaldri (jafnvel bara einn bjór á dag) hafa seinkaðan hreyfiþroska. Um leið og móðirin er orðin edrú er óhætt að gefa og engin þörf á að mjólka sig – brjóstin eru nefnilega beintengd við blóðrásina og hafa því ekki svona efni í sér umfram það sem er í blóðrásinni. Ef mikils áfengis er neytt hægir á mjólkurframleiðslunni þar sem alkóhól hindrar losun oxítosíns sem losar mjólkina úr brjóstunum. Enn eitt verður að hafa í huga þegar áfengisneysla er annars vegar, en það er möguleg vangeta móðurinnar til að annast barnið þegar hún er undir áhrifum áfengis.
Hvað varðar reykingarnar – nikótínið fer einnig yfir í brjóstamjólkina. Rannsóknir hafa sýnt að kona sem reykir 10 til 20 sígarettur á dag hefur u.þ.b. 0.4-0.5 mg af nikótíni í hverjum lítra af mjólk sem þær mynda. Útreikningar gefa til kynna að barnið innbyrði þá sem samsvarar 6-7.5 mg skammti af nikótíni hjá fullorðnum einstaklingi. Fullorðið fólk fær einkenni nikótíneitrunar við 4 mg skammt en banvænn skammtur er 40 til 60 mg. Hafa verður þó í huga við þessa hroðalegu upptalningu að barnið er að fá þetta í sig yfir allan daginn þannig að eitrun er frekar sjaldgæf en kemur þó fyrir ef konan reykir margar sígarettur í röð með stuttu bili á milli. Best er að reykja strax eftir brjóstagjöfina og helst ekki næsta klukkutímann áður en barnið drekkur þannig að nikótínmagnið sé í sem lægstum skammti þegar barnið fær brjóstið. Og vitaskuld skyldi aldrei reykja nálægt börnum. Annað sem nikótínið gerir – það dregur úr mjólkurmyndun með því að hamla prólaktínmyndun, en prólaktín er hormónið sem lætur brjóstin búa til mjólkina.
Ég vona að þetta séu nægar upplýsingar fyrir þig.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir