Áhrif mígrenilyfja á fóstur

Spurning:

Góðan dag.

Ég er að reyna að verða ófrísk, en hef lengið þjáðst af slæmu mígreni. Hef prófað ýmis lyf, (Imigram virkar best) en þau eiga það öll sameiginlegt að í lyfjabók segir að ekki sé vitað um áhrif á fóstur.

Afhverju er þetta ekki rannsakað, eru lyfjafyrirtæki að firra sig ábyrgð?

Hvað er hægt að ráðleggja mér? Þætti mjög vænt um að fá svar.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Þetta er að vissu leyti rétt hjá þér að lyfjafyrirtæki séu að firra sig ábyrgð en það er skiljanlegt vegna þess að verkanir lyfjanna á fóstur og ungabörn sem þetta stendur við eru ekki þekktar. Af hverju rannsaka þá lyfjafyrirtækin ekki áhrif lyfjanna á fóstur og börn? Því er í raun fljótsvarað. Ef maður lítur sér nær og hugsar: „Væri ég reiðubúin(n) að taka þátt í slíkri rannsókn með mitt fóstur eða barn?“ Ég held að langflestir foreldrar svari þessu neitandi og ekki er siðferðilega rétt að þvinga fólk til þátttöku í slíkum rannsóknum. Það er alltaf hætta á að lyfin hafi fósturskemmandi áhrif eða önnur slæm áhrif. Fóstrin og börnin yrðu þolendur í slíkum rannsóknum en þau geta enga vörn sér veitt og þurfa hugsanlega að lifa með afleiðingum slíkra rannsókna allt sitt líf. Því eru rannsóknir á áhrifum lyfja á fóstur og börn hreinlega ekki framkvæmdar í flestum tilfellum.

Staðreyndin er hins vegar sú að oft þarf að gefa þunguðum konum og börnum lyf sem ekki eru ætluð þeim. Er þá ávinningur metinn meiri en sú hugsanlega áhætta sem fylgir fyrir fóstur eða barn. Því safnast upp ákveðin reynsla fyrir lyfin og þegar hún er orðin næg þá er hægt að mæla með notkun eða ráðleggja áfram frá notkun ef svo ber undir.

Ég vona að þú verðir þeirrar gæfu aðnjótandi að verða ófrísk. Almennt er ekki hægt að mæla með notkun mígrenilyfja á meðgöngu. Ef um mjög slæmt mígreni er að ræða, er sjálfsagt að fara til sérfræðings og láta hann meta aðstæður og hvort og hvaða meðferð sé best að nota. Hvíld í rólegu og dimmu herbergi minnkar oft einkenni mígrenikasta.

Kær kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur