Áhugaleysi eða kulnað samband?

Spurning:

Áhugaleysi vegna lyfja eða kulnað samband?
Mig langar gjarnan til að fá svar við svolitlu sem hefur verið að angra mig í þónokkurn tíma. Þannig er að ég og unnusta mín höfum verið í sambúð í tvö og hálft ár, síðan um mitt ár 2002. Hún átti erfitt á sínum yngri árum og nokkur ár áður en við kynntumst voru mjög slæm þar sem hún var nokkrum sinnum í mjög ofbeldisfullum samböndum og kom mjög illa út úr þeim. Eftir að við fórum að vera saman fór að bera á þunglyndi hjá henni. Ég reyndi að styðja hana eins og ég gat en hún var mjög erfið í sambúð og það þurfti lítið til að hún yrði brjáluð, ryki á mig og á tímabili beitti hún mig andlegu ofbeldi sem endaði oft með því að ég flúði út af heimilinu og reyndi að finna mér einhvern stað til að vera á í nokkra klukkutíma, stundum heilan dag, jafnvel átti hún það til að slá til mín. Hún gaf þær skýringar á skapofsanum að hún væri upplifa sömu tilfinningar og þegar hún var í fyrri samböndum og þá snerist það um að hún hélt stöðugt að ég væri að halda fram hjá sér, hún skoðaði símana mína, ég þurfti að gera grein fyrir öllu sem ég gerði o.s.frv.. Á endanum sagði ég henni að hún yrði að leita sér aðstoðar og í framhaldi af því fékk hún geðlyf hjá heimilislækninum en enga meðferð.
Ég vildi að hún fengi sérfræðimeðferð en hún vildi það ekki og ég þorði ekki að nefna það oftar. Þetta gerðist í byrjun árs 2003. Skömmu síðar verður hún ólétt og fer þá á önnur geðlyf og þá er eins og hún ýfist öll upp og stærstan hluta af meðgöngunni er hún mjög tæp, en þegar hún fæðir barnið í lok árs 2003 fer hún aftur á sömu geðlyf og upphaflega og virðist ná aftur áttum.
En síðustu fjóra mánuði hefur allt breyst. Hún hefur sýnt mér og sambandinu okkar lítinn sem engan áhuga, við stundum kynlíf 2-4 sinnum í mánuði, hún hefur lítinn áhuga á að gera eitthvað saman, og virðist að mestu áhugalaus um sambandið. Hún hefur ekki átt frumkvæði að því að kyssa mig síðustu fjóra mánuði, hún hefur ekki sagst elska mig og þegar við förum í rúmið á kvöldin snýr hún baki í mig, segir ekki einu sinni góða nótt og sofnar. Það er lítið sem ekkert um snertingar eða kynlíf og þegar við stundum kynlíf finnst mér ég vera algerlega einn í því, sjálf gerir hún ekkert nema ,,liggja þarna" ef svo má að orði komast. Ég hef reynt, og reyndar alltaf gert það, að gera eins mikið fyrir hana og ég get. Ég er mjög vel settur fjárhagslega og við höfum bæði getað leyft okkur að vera ekki í vinnu í heilt ár án þess að skorta neitt. Við búum í góðu einbýlishúsi og höfum það mjög gott og ég tek jafn mikinn þátt í öllum heimilisverkunum og barnauppeldinu og hún en samt setur hún á mig þá pressu að ég geri ekki nóg. Ég hef síðustu mánuði verið að vinna að verkefni sem ég ætla að ljúka á þessu ári og krefst töluverðrar vinnu en til þess að ég geti sinnt því þarf ég að vinna það fyrir klukkan átta á morgnana og eftir klukkan ellefu á kvöldin. Ef ég sinni verkefni of mikið lætur hún í sér heyra, og hún er farin að gera mikla kröfu um að ég sinni heimilinu og fjölskyldunni, svo ég hef lítinn sem engan tíma til að sinna mínum málum eins vel og ég vildi og þess vegna er ég að tefjast við það sem ég vil vinna að.
Hún er ekki eins slæm og hún var fyrst þegar við fórum að vera saman en hún kemur þannig fram að mér finnst ég vera algerlega einn í sambandinu hvað varðar hana. Ég hef nefnt að ég vilji að hún fái sérfræðiaðstoð og hugsanlega önnur lyf en hún reiðist þegar ég nefni þetta. Það sem mig langar að vita er hvort þetta sé vegna lyfjanna sem hún er á og er þetta eitthvað sem hægt er að breyta með góðri meðferð og öðrum lyfjum eða er sambandið bara kulnað?
Lyfið sem hún fékk ávísað er Zoloft en hún notar samheitalyfið Sertral.
Það er svo komið að öll mín orka er að klárast og ég hef verið að velta því fyrir mér að slíta sambandinu. Hvað á ég að gera?

Svar:
Sæll.
Í raun er engin einföld lausn á þínum málum þar sem um langtíma vandamál er um að ræða. Mikilvægt er að þú ákveðir hvort þú viljir halda sambandinu áfram eða ert búinn að gefast upp. Ef þú vilt reyna áfram þá þarftu að reyna að ræða þetta við unnustu þína og ekki bara senda hana í meðferð heldur að þið færuð saman. Þá getur verið að hún sé í eins mikilli klípu og þú með ykkar samskipti og þarf aðstoð við að leysa þessi vandamál. Ekki veit ég hve mikið þið ræðið ykkar mál en mér heyrist það ekki vera mikið. En þú hefur í raun engu að tapa á því að ræða þetta við hana ef þú ert hvort eð er að gefast upp. Mér heyrist ástandið vera það slæmt að því verði að breyta. Þú lýsir skapgerðarbrestum hjá unnustu þinni og slíkt getur verið erfitt að fást við. Lyfjameðferð er oft notuð við slíku en lyfin virka að mestu á einkenni en ekki skapge
rðina sjálfa. Til að breyta því þarf sérhæfða sálfræðimeðferð. Unnusta þín er á Zoloft sem er þunglyndislyf sem getur einnig dregið úr kvíðaeinkennum. Best er að þið farið saman til geðlæknis til að fá fræðslu um lyfin en einnig er mikilvægt að fylgst sé vel með lyfjagjöfum. Í sambandi við kynlífið þá endurspeglar það oft eðli sambandsins og er partur af því. Ekki er hægt að ætlast til þess að kynlífið sé gott ef sambandið er að öðru leyti erfitt. En ég mæli allavega með að þú ræðir þetta við unnustu þína en passir þig á því að ræða þetta sem sameiginlegt vandamál ykkar beggja. Ef þú setur það þannig upp þá er líklegra að hún vilji vinna í þessu með þér í stað þess að hún þurfi að laga sig og að hún beri ein sök á ástandinu.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur