Spurning:
Ég á 3 1/2 árs barn sem er nýbúið að fara til augnlæknis.
Þar kom í ljós að það er með +2,5 á öðru auganu og +3,5 á hinu auganu. Þarf þetta barn að fá gleraugu eða lagast þetta af sjálfu sér? Háir þetta barninu ekkert að vera svona?
Takk fyrir.
Svar:
Komdu nú sæl.Þetta er nokkuð flókin spurning og geta svörin verið mismunandi eftir því hvaða augnlæknis þú ferð til. Það sem skiptir þó mestu máli er að augun séu svipuð, þ.e. ekki sé of mikill mismunur á milli augna, því við það getur heilinn farið að sjá tvær myndir með augunum og farið að útiloka það auga sem færir honum myndina sem er meira úr fókus. Við það myndast svokallað letiauga, þ.e. annað augað sér ekki eins vel (því má ekki rugla saman við auga sem snýr inn eða út á við). Þessi munur á milli augna þíns barns nær því varla að heilinn sjái tvær myndir, en þó er ekki loku fyrir það skotið. Ég legg hins vegar ríka áherslu á það að það er nægur tími til að meðhöndla það ef það augað sem er með meiri plús fer að verða ,,latt". Þetta kemur allt saman betur í ljós næst þegar þú ferð til augnæknisins, sem er sennilega eftir 6-12 mánuði. Þá getur hann skoðað barnið betur og það er farið að framkvæma hluti nær sér en áður, s.s. skoða stafi o.s.frv. Þetta háir því barninu lítið sem ekkert á þessu stigi, þar sem það býr yfir þeim einstöku hæfileikum að geta breytt augasteinum sínum í plúslinsur. Margur einstaklingurinn kominn yfir fertugt gæfi mikið fyrir slíkt og gæti þá fleygt lestrargleraugunum. Staðreyndin er nefnilega sú að þegar maður færir hluti nær sér, þarf enn meiri plús, þannig að augasteinninn þarf að breyta enn meir um lögun. Því þarf yfirleitt að útvega börnum með fjarsýni á borð við það sem þú nefnir plúsgleraugu um það leyti sem þau fara að læra stafina og lesa.Láttu fylgjast vel með barninu þínu en hafðu litlar áhyggjur af málunum á þessu stigi.Gangi þér sem best,Jóhannes Kári.