Álagsastmi

Góðan dag,
Ég er að velta fyrir mér hvernig ég get vitað hvort ég sé með álags asma. Ég er að skokka úti og taka stutta og langa spretti, þegar ég er búinn með þessa spretti finn ég oft fyrir þreytu í hálsi, öndunarvegi og í kryng um brynguna.
Bestu þakkir

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Ég mæli með því að þú farir til læknis sem getur framkæmt á þér öndunarpróf eða áreynslupróf til að skera úr um hvort þú sért með áreynslu astma. Helstu einkenni astma eru hósti, skyndileg mæði og minnkað þol, þyngsli fyrir brjósti, hvæsandi öndun (píp eða surg). Dæmigerður áreynslu astmi kemur fram eftir 5-20 mínútna áreynslu en allt að 20% einstaklinga finna fyrir einkennum áreynslu astma og eru það einkum íþróttir með langtíma og viðvarandi áreynslu eins og langhlaup sem framkalla einkenni astma.

Til að forðast einkenni er gott að hita upp í nokkrar  mínútur áður en full áreynsla byrjar og hægja rólega á æfingum í lokin og gera teygjuæfingar. Forðast mikla áreynslu í kulda og/eða þegar rykmegnun er mikil og nota klút fyrir vitin sem hjálpar til við að hita og sía loftið.

Flestir geta  haldið áfram að stunda sínar íþróttir með áreynsluastma en hann er yfirleitt  meðhöndlaður með innöndunarpústum sem eru notuð um 15-20 mínútum fyrir áreynslu.

Gangi þér vel

Guðrún Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur