Spurning:
Góðan dag.
Ég er búin að lesa á vefnum hjá ykkur um ýmis íþróttameiðsl en hef ekki fundið svar við spurningu minni. Málið er að ég datt fyrir löngu illilega á hnéð og hef alltaf verið með þykka örvefskúlu þar síðan. Bæði er þetta ljótt og veldur mér jafnframt vandkvæðum við þá hreyfingu sem ég stunda því það má varla koma við þetta svæði án þess að það verði grænt og blátt og mig verkjar voðalega ef það mæðir eitthvað á hnénu. Er einhvern veginn hægt að losna við þetta? Ég hef heyrt ýmislegt um vítamín, nudd og uppskurð og fleira, en vona að þið eigið einhver svör fyrir mig.
Bestu kveðjur og þakkir.
Svar:
Sæl og blessuð.
Ef þú hefur ekki þegar fengið svar við fyrirspurn þinni, þá langar mig að nota tækifærið hér og segja þér að það væri lang best fyrir þig að koma til okkar á sjúkraþjálfunarstofuna og leyfa einhverri okkar að kíkja á hnéð á þér.Það sem ég myndi gera væri að byrja á því að kíkja á og skoða hnéð, það er kíkja eftir bólgum, mari, holdningu o.fl. Því næst myndi ég athuga hreyfigetuna hjá þér og samhliða því framkvæma nokkur ,,test". Þannig gæti ég kortlagt verkina og sjá hvaða hreyfing er að angra þig mest. Svo myndi ég athuga vöðvastyrkinn og jafnvægið. Þar á eftir gæti ég nokkurn veginn farið að gera mér hugmyndir um hvernig væri hægt að meðhöndla þetta. Annað hvort að meðhöndla þetta með hljóðbylgjum eða nuddi og/eða bakstri. Því næst kæmi æfingarsalurinn sterklega til greina.En það er svo erfitt að gefa eitt ákveðið svar í svona tilfelli, sérstaklega þar sem þú nefnir að það hafi myndast þykk örvefskúla.Vertu ævinlega velkomin til okkar á stofuna.Ef þú ert ekki sátt við þetta, sendu þá póst á mig aftur þar sem þú gætir þá lýst þessu örlítið nánar. Hvar örvefskúlan liggur, við hvaða hreyfingar ertu að fá verki? Hvað gerir þú til þess að hindra þá? Hvað ertu að gera þannig að verkirnir aukast? Ertu að taka eitthvað við þessu núna? Hefurðu farið í einhverja meðhöndlun?Með kærri kveðju,
Ásgerður Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfariSjúkraþjálfun Styrkur