Andremma …

Andremma sem líkist hvítlaukslykt …. ?

Kemur upp úr hálsi ….

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,

Það er fjölmargt sem getur orsakað og/eða haft áhrif á andremmu og myndi ég hvetja þig til þess að byrja á því að útiloka að vandamálið orsakist af sýkingu eða kvilla s.s. í munnholi, hálsi, nefkoki eða  ennis- og kinnholum. Bakflæði frá vélinda er önnur möguleg orsök andremmu sem gott væri að útiloka. Hér getur þú lesið þér til nánar um andremmu. https://doktor.is/lifstill/ertu-andful-l

Þú nefnir sérstaklega hvítlaukslykt og þá vil ég gjarnan benda þér á að sú lykt kemur í raun ekki frá munninum heldur verður til vegna þess að viss súlfur efnasambönd berast úr hvítlauknum í blóðstreymið og þaðan út í gegnum lungu og vit. Því er til dæmis tannburstun ekki nægileg til að vinna bug á þessu vandamáli, heldur þyrfti þá að velja að annað hvort forðast hvítlauk eða mögulega nýta sér ráð til að hlutleysa þessi súlfur sambönd. Rannsóknir hafa sýnt að einföld ráð svo sem að borða fæðu sem inniheldur phenolic efnasambönd geti hjálpað til við að draga úr andremmu vegna hvítlauks, en þau er til dæmis að finna í mintu, eplum, rósmarín og káli.

Að lokum getur þú svo lesið fleiri ráð um hvernig er hægt að vinna bug á þessu leiðinda vandamáli. https://doktor.is/fyrirspurn/andremma-hvao-er-til-raoa

Með kveðju

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur