Spurning:
Góðan daginn!
Mig og kærastann minn langar mikið að hætta að reykja og erum oft búin að reyna. Það gekk hjá mér fyrst þegar við hættum að reykja en þegar ég komst að því að hann var búinn að reykja í laumi mest allan tímann fór ég líka að reykja. Þarna hættum „við“ í 8 mánuði.
Okkur langar mikið að prófa að hætta að reykja með nýja lyfinu, Zyban. Hvernig lyf er þetta? Er þetta ekki mjög dýrt? Af hverju á maður að taka þetta lyf og plástur?
Kveðja.
Svar:
Komdu sæl og takk fyrir bréfið.
Frábært að þú stoppaðir í 8 mánuði. Zyban er þunglyndislyf, en virkar aðallega á tóbaksfíknina. En eins og þú veist þegar hætt er reykingum koma fram fráhvarfseinkenni þegar nikótínið minnkar í líkamanum; þá kemur plásturinn í góðar þarfir til að draga út óþægindunum.
Mánaðarskammtur af Zyban kostar um 7000 kr. og mánaðarskammtur af sterkasta plástrinum kostar um 4000 kr. Þetta er nánast sami kostnaður og að reykja einn pakka á dag í einn mánuð (10.000). Þú þarft að fá lyfseðil hjá heimilislækni fyrir lyfinu. Þú tekur 1 töflu á dag í 2 daga, síðan 1 töflu tvisvar á dag í 3 daga; og á 5. degi hættir þú reykingum og byrjar á nota plástur með Zyban. Ég mæli með Zyban í 3 mánuði og plástur sem hér segir: fyrsta mánuð með sterkasta plásturinn, annar mánuður með miðstyrkleika. Á 3. mánuði notar þú vægasta plásturinn aðeins í 2 vikur og hættir þá, en heldur áfram með Zyban í 2 vikur.
Vona að þetta sé nógu skýrt.
Gangi þér vel.
Dagmar Jónsdóttir, reykingaráðgjafi