Spurning:
Varðandi langtímanotkun á Seroxat. Ég greindist með þunglyndi fyrir 7 árum og hef verið meira og minna á lyfjum við því síðan. Nú hef ég tekið Seroxat í 3 ár samfleytt og er farið að finnast ég vera ,,dofin" í höfðinu. Allt í hægagangi, engar sveiflur, hvorki upp né niður. Getur það verið lyfinu að kenna og hvernig er best að hætta?
Svar:
Þessi einkenni sem þú lýsir þekkjast sem aukaverkanir af lyfinu Seroxat (paroxetín, er heitið á virka efninu). Þó gætu hugsanlega verið aðrar ástæður fyrir þeim sem þú þarft að ræða við lækninn þinn. Þar sem hann mun þekkja sögu þína og aðstæður getur hann betur dæmt um það.Þegar hætt er að nota paroxetín eftir langa notkun er alltaf einhver hætta á einskonar fráhvarfseinkennum. Því ber alls ekki að gera það nema gegn læknisráði og þá smám saman. Eins gæti dugað að minnka skammtinn eða skipta yfir í nýtt lyf.Ég get því ekki gefið þér neitt annað ráð en að ræða þetta við lækninn þinn og fara að hans ráðum.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson,
lyfjafræðingur