Blóðsykursmæling á fastandi maga eða ekki?

Spurning:
Komiði sæl.
Ég er 69 ára gamall karlmaður og fyrir nokkrum árum greindist ég með sykursýki 2. Heimilislæknirinn minn sendi mig þá á göngudeild sykursjúkra og þar fékk ég frábærar upplýsingar sem leiddu til þess að ég fékk mér þrekhjól og breytti um mataræði. Ég hjólaði af miklum krafti og geri enn. Þetta leiddi til þess að læknar á göngudeildinni sögðu, að ég hefði náð svo góðum árangri að heimilislæknirinn gæti nú tekið við.
Ég hef frá upphafi tekið 1 Glucophage 2svar á dag. Hvorki á göngudeildinni né hjá heimilislækni hefur mér verið uppálagt að vera fastandi fyrir prufur, en þegar ég fór í prufu síðast, forfallaðist læknirinn minn og gegndi þá annar læknir hans sjúklingum. Sá vildi að ég væri fastandi fyrir prufuna og ég gerði það. Útkoman var mjög góð á öllum sviðum, en svo gerðist það í sumar að minn læknir var í sumarleyfi og sá sami og áður gegndi aftur fyrir hann störfum. Mér láðist að segja honum að ég hafi aðeins í þetta fyrsta skipti hjá honum farið fastandi í prufurnar og var búinn að borða. Ég bað hann að senda mig í tékkun, en hann sagði að þar sem ég væri búinn að borða, myndir sykurinn ekki mælast og bætti við að sykurinn kæmist ekki út. Mér sem leikmanni fannst þetta dálítið undarlegt og ákvað því að láta heimilislækni minn, sem ég fór til nýlega, mæla sykurinn m.a. og þá var ég með fullan maga. Ég spurði hann um leið að því hvers vegna staðgengill hans vildi ekki senda mig í prufur nema fastandi. Læknirinn minn sagði þá að hann hefði gert allt rétt og reyndi að útskýra fyrir mér mismuninn á fastandi og ekki fastandi.
Ég verð að viðurkenna að ég náði þessum útskýringum hans ekki nægilega vel og bið því sérfræðing ykkar að gefa mér svar við þessu. Ég vil geta þess að heimilislæknirinn minn sendi mig í rannsókn vel saddan!

Með bestu kveðju

Svar:
Til greiningar er stuðst við fastandi blóðsykurmælingu og ef blóðsykur reynist hækkaður er talað um sykursýki. Stundum er einnig gert sykurþolspróf og er þá innbyrt ákveðið magn sykurs og blóðsykur mældur í kjölfarið og horft á hversu mikið blóðsykur hækkar. Við venjulega máltíð er ekki hægt að mæla nákvæmlega hversu orkurík máltíðin er eða magn sykurs og það gerir mælingar blóðsykurs óáreiðanlegar. Til að fylgja eftir sykursýki er venjulega mældur svokallaður langtímablóðsykur(HbA1c) sem segir til um blóðsykurgildi síðustu vikna. Ekki skiptir þá öllu máli hvort viðkomandi er fastandi þá stundina sem blóðið er tekið. Einnig getur verið gagnlegt að mæla blóðsykurinn bæði fyrir og eftir mat og sjá hversu mikið hann sveiflast, einkum ef fólk er með blóðsykurmæli heima.

kveðja,
Einar Eyjólfsson