Bóluefnið Priorix

Spurning:

Komdu sæll!

Mig langar að senda inn fyrirspurn varðandi bóluefnið Priorix. Ég á tæplega 18 mánaða gamla dóttur sem er með barnaexem og ofnæmi fyrir eggjum. Mér hefur verið bent á að sumir læknar vilji ekki bólusetja börn með eggjaofnæmi með þessu lyfi og hefur mér verið bent á að leita upplýsinga varðandi þetta. Er einhver ástæða til að varast þetta að þínu mati?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Priorix er frostþurrkuð blanda veira af veikluðum mislingum, hettusótt og ákveðnum stofni rauðra hunda, sem hafa hver fyrir sig verið ræktaðar annað hvort í fósturvef kjúklinga (hettusótt og mislingar) eða MRC5 tvílitna frumum manna (rauðir hundar). Priorix er framleitt samkvæmt kröfum Alþjóðlegu heilbrigðismálastofnunarinnar um framleiðslu lífefna, og um mislinga-, hettusóttar- og rauðu hunda bóluefni, sem og kröfum um samsett bóluefni (lifandi).

Eins og á við um öll bóluefni til innspýtingar, skal viðeigandi læknishjálp og tækjabúnaður vera til staðar ef sjaldgæf bráðaofnæmisviðbrögð eiga sér stað í kjölfar gjafar bóluefnisins.

Sýnt hefur verið fram á að bóluefni sem ræktuð eru í fósturvef kjúklinga innihalda ekki nægilega mikið af eggjapróteinum til að valda ofnæmi. Íhuga má ónæmisaðgerð hjá einstaklingum sem hafa eggjaofnæmi sem ekki er talið valda hættu á ofnæmislosti. Bóluefnið skal gefa með varúð þeim einstaklingum sem hafa sögu eða fjölskyldusögu um ofnæmissjúkdóma og einnig þeim sem hafa sögu eða fjölskyldusögu um krampa.

Ofangreindur texti er úr íslensku Sérlyfjaskránni og samkvæmt honum ætti að fara varlega í að gefa börnum með eggjaofnæmi þetta bóluefni. Magn eggjapróteina á að vera það lítið að það valdi ekki ofnæmi svo að líkurnar á ofnæmi eru ekki miklar þó að þær séu til staðar. En ef Priorix er notað á börn með eggjaofnæmi verður bráðaaðstoð að vera til staðar (eins og alltaf).

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur