Þrátt fyrir miklar æfingar losna ég ekki við efri magann

Spurning:

Sæl.

Ég er 34 ára og stunda leikfimi 3-4 sinnum í viku þá aðallega Body pump. Það er sama hve mikið ég æfi ég losna ekki við efri magann. Ég er 170 cm há og 63 kg. Getur þú hjálpað mér með þetta vandamál?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Fitufrumurnar dreifast með mismunandi hætti á líkama okkar og margar konur eru með það sem kallast eplavaxtarlag, þ.e. safna fitu framan á kvið en hafa grönn læri og mjaðmir. Það hljómar eins og þú sért eplalaga og sért með einhverja fitu framan á þér. Þú ert í fínni þyngd en ef þú vilt eindregið losna við þessa auka fitu sem þú talar um þarftu að bæta aðeins við þig í æfingum og e.t.v. gæta betur hófs í mataræði. Ég mæli með því að þú bætir þolþjálfun við "body pump" æfingarnar. Bættu við þig smá sprett þjálfun, þú hleypur í mínútu og gengur í mínútu og endurtekur það í 25 mín 3x í viku. Gleymdu ekki að hita upp og kæla niður með 5 mín. göngu fyrir og eftir sprettþjálfunina. Láttu svo á móti þér sælgæti og kökur svona að mestu. Með þessum hætti ættir þú fljótlega að sjá þann árangur sem þú sækist eftir.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari