Spurning:
Góðan daginn!
Ég er 40 ára gamall og hef ekki stundað reglubundna líkamsþjálfun sl. 18 ár. En í vor byrjaði ég að skokka mér til heilsubótar og hef náttúrlega fundið til verulegs bata hvað líkamlegt ástand áhrærir.
En samhliða því hef ég átt æ erfiðara með nætursvefn. Það er í raun sama hvað maður gerir, hann verður æ styttri, slitróttari og grynnri. Og veldur síðan því að maður er sífellt þreyttur og syfjaður við vinnu. Þetta er nánast óþolandi ástand.
Getur verið að skyndilega breytt líkamsþjálfun geti haft áhrif í þessa átt?
Ef þú hefur ábendingar eru þær vel þegnar.
Kveðja,
Svar:
Sæll.
Til hamingju með að vera byrjaður að stunda reglubundna líkamsþjálfun. Það er auðvitað hið besta mál nema að þú sért að fara of geyst og ofreyna þig. En þú tilgreinir ekki í bréfi þínu hversu oft þú skokkar eða hversu lengi í einu en e.t.v. fórst þú of geyst af stað í byrjun eftir svo langan tíma af kyrrsetu og ert að ofreyna þig vegna of tíðra æfinga og of mikillar ákefðar.
Ef sú er raunin er hugsanlegt að rekja megi svefntruflanirnar til þjálfunarinnar. Ef þú hefur skokkað 2-4 x í viku á nokkuð „þægilegum“ hraða og skokkað 20 – 40 mín í einu er ólíklegt að þjálfuninni sé um að kenna. Ef þú hefur stundað líkamsþjálfun þína á „eðlilegan“ máta ráðlegg þér að leita til læknis vegna svefntruflana þinna.
Kveðja,
Ágústa Johnson