Þunglyndi

Fyrirspurn:

Ég veit í raun ekki hvar ég á að byrja, eða enda kannski réttara sagt. Ég hef verið að kljást við þunglyndi lengi og hef verið á miklum lyfjum. Einsog staðan er í dag langar mig ekkert sérlega að lifa lengur, hef enga löngun. Hef lítið sjálfsálit og sé voðalega lítinn tilgang með þessu lífi. Er samt sem áður að fara að hitta geðlækni eftir tvær vikur en dagarnir þyngjast og veit ég ekki hvort ég meika það að bíða svona lengi… Er í vinnu sem mér líka vel við og reyni að vera eins mikið í henni og ég mögulega get til þess að gleyma mér..  Ég er ein en á yndislega fjölskyldu sem hefur alltaf verið mér sem stoð og stytta og finnst mér alveg hryllilega erfitt að vita til þess hvað ég á eftir að særa hana mikið.. Það eru heldur ekki allir að skilja mig sem ég skil svosem vel en ég er oftast voðalega "glöð" og félagslynd manneskja.. eða það er mér sagt.. reyni allaveganna að vera það.. svo að öðrum líði betur..

Það hellast yfir mig sjálfsvígshugsanir næstum því á hverjum degi en ég reyni að láta daganna líða og hugsa um eitthvað annað… Þetta er mjög erfitt en ég reyni að gera mitt besta…. Hvert getur maður leitað ef maður er alveg að missa vonina?

Hef verið inná geðdeild og fannst mér árangurinn vera lítill sem enginn.. og langar mig alls ekki að leita þangað aftur..( allt var yndisleg, allir yndislegir við mig og allt það, en það hjálpaði bara lítið) Ég á rosalega erfitt með að tjá tilfinningar mínar og þau viðtöl sem ég hef farið til lækna og sálfræðinga hafa ekki hjálpað mér neitt.. eða voðalega lítið enda er ég sérfræðingur í því að henda fram grímunni þegar ég þarf á því að halda.. Þetta er mér alveg rosalega erfitt. .. Læknirinn vill ekki breyta lyfjjunum mínum og ætlar að minnka þau þó svo að ég hafi hitt hann um daginn og hann vissi að mér leið ekki vel.. afhverju er það? Er hægt að festast bara á háum skammti af þunglyndislyfjum?, meina ég þá ef það eru einhverjar hreyfinga á lyfjunum virka þau þá betur.. er ekki alveg að skilja þetta og er ég alveg að gefast upp.. Geri mér samt alveg grein fyrir því að lyfin segja ekki allt..

Með von um svar sem fyrst..
takk fyrir

Aldur:
24

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Þunglyndislyf hjálpa mörgum, en alls ekki öllum og þegar árangur meðferðar með lyfjum er ekki viðunandi er etv. betra að breyta eða hætta meðferð með lyfjunum og leita annarra leiða í meðferðinni. Þunglyndislyf eru ekki ávanabindandi. Sjúklingar með alvarlegt og endurtekið þunglyndi sem fengið hafa góða hjálp með þunglyndislyfjum þurfa samt margir að taka þau fyrirbyggjandi til lengri tíma.
 
Það hljómar eins og það séu jákvæðir þættir í þínu lífi sem vert er að lifa fyrir. Þú segir að þér líki vel í vinnunni og eigir góða að. Þrátt fyrir þetta líður þér illa, hefur lítið sjálfsálit, sérð ekki tilgang með lífinu og hugleiðir sjálfsvíg. Þú hefur áður rætt við lækna og sálfræðinga án árangurs segir þú. Undanfarið hefur svokölluð hugræn atferlismeðferð (HAM) verið notuð meira og meira í meðferð sjúkdóma eins og þunglyndis og kvíða. Þessi meðferð hjálpar einstaklingum að skilja sínar eigin hugsanir og hvernig þessar hugsanir hafa áhrif á líðan og hegðun. Með því að öðlast skilning á samspili hugsana, tilfinninga og hegðunar tekst mörgum að breyta hugsanmynstri sínu í jákvæðari átt. Í þessari meðferð er lögð áhersla á að sjúklingurinn sé virkur í eigin meðferð, t.d. með því að halda dagbók og skrá í hana hugsanir og hegðun og einnig að æfa sig í að breyta sinni eigin hegðun. Slík meðferð gæti etv. hjálpað þér. Þú segist eiga erfitt með að tjá tilfinningar þínar, en kannski hjálpar ef þú skrifar meira niður. Þú getur rætt við þinn geðlækni um möguleikana á slíkri meðferð. Margir sjálfstætt starfandi sálfræðingar bjóða upp á slika meðferð, en einnig er hægt að sækja um að komast að á göngudeild geðdeildar Landspítala, þó þar sé nokkur biðlisti.
Sé þunglyndi þitt svo alvarlegt að þú hugleiðir sjálfsvíg í alvöru, er mikilvægt að þú leitir þér strax hjálpar og dragir ekkert undan. Það er hægt að hjálpa öllum sem þjást af þunglyndi, það finnast þó ekki neinar töfralausnir og ferlið að betri líðan getur verið mörgum langt og erfitt.

Gangi þér vel, Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir