Þurrkur í leggöngum á meðgöngu?

Spurning:
Hæ, hæ, ég er 19 ára kona og er komin 31 viku á leið. Frá upphafi meðgöngu er ég búin að vera með sveppasýkingu og kvensjúkdómlæknirinn minn sagði mér að kaupa Pevaril en það hefur ekkert virkað og því keypti ég fyrir u.þ.b mánuði Canestan bæði stíl og krem en svo virðist að ég er enn mjög slæm og þá sérstaklega þegar að ég er búin að hafa samfarir. Getur verið að ég sé kannski bara með þurrk í legggöngum af því ég finn eiginlega bara til þegar að ég hef samfarir? Og á skapabörmunum eru svona hvítar rendur sem eru óþægilegar, er það ekki bara sveppasýkingin? Ég vona að þið getið svarað mér því að þetta er mjög sársaukafullt. Kveðja

Svar:
Það er nokkuð algengt að konur hafi þurrk í leggöngum á meðgöngu vegna hormónaáhrifa. Prófaðu að nota sleipuefni eins og Astroglide, og reynið að hafa samfarirnar fremur stuttar meðan þú ert að jafna þig. Það tekur slímhúðina nefnilega 2 – 3 vikur að ná sér eftir sveppasýkingu. Varðandi hvítu rendurnar þá líkist það nú helst sveppasýkingu en til vonar og vara skaltu biðja lækninn þinn að líta á þetta.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir