Spurning:
Sæll.
Ég er 22 ára gömul kona. Ég á eitt barn og er búinn að vera í sambandi í 3 ára. Ég hef vandamál!! Ég er búinn að prófa allt í kynlífi en ég get ekki náð fullnægingu. Er ekki til lausn á þessu vandamáli? Hvert getur maður leitað?
Takk fyrir.
Svar:
Sæl.
Það er því miður ekki auðvelt að gefa þér góð ráð, þar sem þú segir ekkert annað um vandamálið en að þú fáir ekki fullnægingu og að þú hafir prófað allt í kynlífi. Það að konur fái ekki fullnægingu getur stafað af mörgum orsökum t.d. of lítilli eða of skammvinnri ertingu, ónógri slökun eða of miklu stressi, að þær ná ekki að njóta kynlífsins, of bráðu sáðláti mannsins eða stressi hans og margt fleira væri hægt að telja upp.
Ekki er til nein einföld lausn á þessu vandamáli, sem er mjög algengt meðal kvenna. Nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að allt að 25% kvenna eiga í erfiðleikum með að fá fullnægingu eða fá hana ekki. Það er hins vegar mjög oft hægt að laga þetta mikið með kynlífsmeðferð þeirra sem til þekkja og hana kunna. Ég ráðlegg þér að leita þér aðstoðar hjá sérfræðingi og bendi á að nauðsynlegt er að maðurinn þinn taki þátt í meðferðinni með þér. Kynlífsvandamál er alltaf samskiptavandamál þeirra sem taka þátt í kynlífinu þ.e. það hefur með samskipti þeirra að gera. Þess vegna er nauðsynlegt að maðurinn þinn taki þátt í meðferðinni. Einnig bendi ég þér á að lesa kaflann um kynlífsvandamál í Sálfræðibókinni. Þar er heilmikið fjallað um þinn vanda.
Kveðja,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur