Spurning:
Ég efast um að þó þú hafir starfað lengi munir þú hafa heyrt um tillfelli sem mitt! Jæja, ég læt það vaða! ég er 18 ára og er með konu á heilanum! Konu sem er ekki einu sinni til (nema í sjónvarpsþætti), svo ég megi bæta því við! Ég er farin að hræða sjálfa mig því að einhverstaðar trúi ég að hún sé til. Hið jarðbundna og draumaheimurinn togast á um mig! Þetta hefur áhrif á allt líf mitt og ég óska og óska að hún sé til. Það er möguleiki að það sé kona eins og hún þarna úti, en hve miklar líkur eru á því?
En svo vil ég líka trúa að hún sé til. Mig dreymir um hana daga og nætur, get ekki hætt að hugsa um hana. En mér finnst þetta vera stundum meira en það. Ég hef alltaf lifað í draumaheimi þar sem allt er mögulegt en þarf ég ekki að koma niður á jörðina einhvern tímann? En ef draumarnir deyja, deyr allt það sem ég er með. Ég er draumarnir, hef alltaf skilgreint mig sem góða og hef haldið í það góða með því að dreyma. Ef það góða í mér dey verð ég eins og allir aðrir sem hugsa bara um hvað á að borða í kvöld, hvað þarf að læra fyrir morgundaginn og annað.
En ég get ekki haldið svona áfram er það? Seg mér ef ég þarf að leita til sálfræðings. ég veit að ég verð að gera eitthvað, en hvað?
Svar:
Því miður kemur ekki fram í bréfi þínu hvort þú ert karl eða kona eða hversu gamall eða gömul þú ert. Af orðunum “Ég er farin að hræða sjálfa mig…” að dæma ertu kona (eitt N í farin) en draumar þínir um háa og dökkhærða konu bendar frekar til þess að þú sért karl. En hvort sem þú ert kona eða karl og á hvaða aldri sem þú ert er augljóst að það er ekki gott að lifa einungis í draumaheimi. Hugmyndir þínar um að allt það góða í þér deyi ef draumarnir deyja eru líka athugaverðar.
Ég ráðlegg þér að halda ekki svona áfram og leita þér hjálpar hjá sálfræðingi. Því fyrr því betra. Það er hægt að hafa það ágætt í raunveruleikanum en þú þarft greinilega hjálp til að átta þig á því og láta það rætast.
Gangi þér vel.
Reynir Harðarson
sálfræðingur S: 562-8565