Ég græt yfir litlum hlutum og enda oftast í algerri sjálfsvorkun

Spurning:

Sæl.

Mig vantar ráð um hvað ég skuli gera eða hvert ég skuli leita vegna vandamáls míns.

Ég er búin að eiga ansi erfitt með sjálfa mig síðasta mánuðinn og finnst það sífellt versna meira. Ég er með gríðarlega skapgerðarbreytingar, það er að segja það þarf ekki nema eitt vitlaust orð frá einhverjum eða eina neikvæða hugsun frá sjálfri mér til þess að draga mig niður og ég verð döpur, reið bitur eða finn fyrir einhverjum slíkum tilfinningum.

Ég er byrjuð að gráta yfir litlum hlutum eiginlega á hverjum degi og endar það oftast í algerri sjálfsvorkun yfir öllu mögulegu. Ég á það til að byrja að finna einhverja gamla og neikvæða hluti sem að hafa komið fyrir mig eða ég gert og velta mér upp úr þeim.

Ég hef reyndar alla tíð verið verið frekar „þung“ í hugsun og tekið mín „þunglyndisköst“ en finnst ég einhvern veginn ekki vera alveg að þola það núna. Það er eins og ég sé að reyna að gera sjálfa mig óhamingjusama þó að ég vilji það samt ekki!

Vona að þú getir ráðlagt mér eitthvað.

Svar:

Sæl vertu.

Það hljómar þannig að þú þurfir að leita þér hjálpar. Mig langar að bjóða þér að koma í sjálfshjálparhóp þunglyndis hér á Túngötu 7, hjá Geðhjálp. Hópurinn hittist fimmtudaga kl.17.30-19.00. Þú ættir einnig að leita til Göngudeildar geðdeildar Landspítalans. Þar er opin bráðaþjónusta frá 8.00-23.00 alla daga. Það er ekki hægt að panta tíma en best að leita á morgnana milli 9.30 og 12.00 ef hægt er. Göngudeildin er á horni Snorrabrautar og Hringbrautar keyrt inn frá Eiríksgötu. Þú kemur mjög sennilega til með að hitta geðhjúkrunarfræðing og geðlækni sem aðstoða þig við að meta stöðuna. Þér er velkomið að vera í sambandi hingað í framhaldinu.

Með bestu kveðju.
Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi Geðhjálp