Spurning:
Mig vantar svar við spurningu.
Þannig er að ég fæ stundum verki í augun, annað eða bæði. Þau verða blóðsprungin og bólgin. Kláði og sviði fylgir líka. Ég keypti mér ofnæmisdropa og er nýbyrjuð að nota þá þegar ég fæ þessi einkenni. Tel að ég sé betri eftir þá. Þetta byrjar yfirleitt þannig að mig fer að klæja fyrst og svíða í augun. Þá nuddar maður augun og þau bólgna. Stundum eru bara verkir, og ég geri mér ekki grein fyrir hvort verkurinn er í auganu sjálfu eða bakvið augun. Finnst þó eins og verkurinn sé bakvið augað. Er þetta ofnæmi eða hvað? Kærar þakkir.
Svar:
Komdu sæl.Einkenni margra sjúkdóma sem herja á augað svipar oft mjög saman, þannig að það er erfitt að segja með vissu hvað er að valda þessu hjá þér. Segja má að kláði bendi frekar til ofnæmis en sviði til hvarmabólgu. Þetta er þó alls ekki einhlítt og getur þurrkur í augum t.d. valdið þessum einkennum líka. Þurrum augum fylgir þó oftast tilfinning í augum eins og eitthvað sé uppi í þeim. Ef þú ert með stírur í augunum á morgnana gæti svaranna verið að leita í hvarmabólgu og ekki síst ef þú verður oft rauð í kringum augun og auðert, þ.e. verður auðveldlega rauð í augum, t.d. í sundi. Ég held að þú ættir endilega að leita augnlæknis og fá hann til að skoða augun vandlega. Sennilega er þetta ekki alvarlegt en skoðun er nauðsynleg til að komast að hinu sanna. Ef um er að ræða ofnæmi er ekki ósennilegt að þú þurfir að fara til ofnæmislæknis einnig.Bestu kveðjur og gangi þér vel.Jóhannes Kári.